- Advertisement -

Borgarstjórn friðar seli í Reykjavík

Að friða sel við er löngu tímabær aðgerð… …að leyfa enn einni tegundinni að deyja út við Íslandsstrendur.

„Við samþykktum í gær tillögu um friðun sels innan Reykjavíkur. Landselur er í bráðri útrýmingarhættu og löngu tímabært að friða hann. Hann hefur lengi verið skotinn við ósar laxáa því talið var að hann væri að veiða lax, lax sem veiðimenn sjálfir vildu veiða. Í dag vitum við hins vegar að hann er hluti af mikilvægri hringrás vistkerfisins og hugsunarháttur þess tíma er vonandi liðinn.“

Þetta skrifar Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi Pírata og birtir á Facebook.

„Nýútkomin skýrsla Sameinuðu Þjóðanna um ástand lífríkis jarðar sýnir okkur sláandi stöðu og við blasir hrun óteljandi dýrategunda. Hrun sem orsakast af okkar lífsháttum og viðhorfum. Þetta á við um jörðina gjörvalla og er Ísland þar ekki undanskilið. Hætt er við því að 90% dýrategunda við Ísland muni hverfa innan næstu 50 ára.

Langt er síðan mannskepnan nam land á Íslandi en henni hafa alla tíð fylgt óafturkræf áhrif á vistkerfi landsins. Þau hafa meðal annars birst í breytingum á gróðri og ofveiði á dýrategundum, meðal annars rostungi og geirfugli. Það er gríðarlega mikilvægt að við reynum að minnka fótspor okkar eftir fremsta megni þannig að uppbygging mannvirkja og framleiðsla matvæla eyði ekki búsvæðum annarra tegunda. En fótspor okkar er ekki bara efnislegt heldur líka tengt mengun og útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þannig er nauðsynlegt að við hugum að öllum þeim áhrifum sem mannleg hegðun hefur á vistkerfi landsins, bæði á landi og í sjó.

Að friða sel við er löngu tímabær aðgerð þar sem stofnar hans eru verulega hætt komnir og við getum gert betur en svo að leyfa enn einni tegundinni að deyja út við Íslandsstrendur.

Umhverfis- og heilbrigðisráð samþykkti því tillögu um friðhelgi á strandsvæðum og við árósa innan Reykjavíkur á sama tíma það hvatti til þess að lagaumgjörð um seli verði endurskoðuð með það fyrir augum að tryggja vernd íslensku selastofnana til framtíðar.“

Forsíðumyndin er fengin af Facebooksíðu Sigurborgar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: