Ágústa Ágústsdóttir Miðflokki tók þátt í umræðu á Alþingi um matvælaöryggi.
„Ég hef sjálf verið mikill talsmaður fæðuöryggis og í rauninni finnst mér svolítið umhugsunarvert að maður þurfi yfirhöfuð að vera að tala fyrir eða hvetja til þess að fæðuöryggi sé tryggt hér á landinu. Við búum á eldfjallaeyju og ekki bara það heldur einnig virkustu eldfjallaeyju í heiminum. Það á að vera skylda hverrar þjóðar að vera eins sjálfbær og mögulegt er miðað við aðstæður landsins. Ísland er matarkista hvernig sem á það er litið,“ sagði Ágústa sem nu sinnir þingstörfum í fjarveru Sigmundar Davíðs flokksformanns.
Ágústa minntist Covid-tímans: „Það má nefna það að maður fékk hálfgert áfall í Covid þegar kom í ljós t.d. að hér voru eingöngu til matarbirgðir til þriggja vikna. Maður hugsar bara þvert á alla flokka, hér eru ótal flokkar og flestir búnir að vera í ríkisstjórn undanfarin 10–20 ár: Af hverju er þetta ekki fyrir löngu tryggt? Það finnst mér fyrst og fremst vítavert. Þetta er bara grundvöllur þess að við getum lifað af. Og hvað ætla menn að gera, eins og háttvirtur þingmaður Þórarinn Ingi Pétursson kom inn á, með þessa setningu sem stundum heyrist: Ja, við flytjum þetta bara inn? Af hverju flytjum við þetta ekki inn? Hvað erum við að hugsa? Hvað erum við að rembast? En hvað ætla menn að gera ef flutningsleiðir að utan lokast? Eins og áður hefur komið fram þá titrar heimurinn í kringum okkur á svo margan hátt og frá mörgum vinklum. Hvað ætlum við að gera? Hvar standa menn þá með engar matarbirgðir í landinu eða fæðubirgðir þegar allt í einu allt lokast og allir verða brjálaðir yfir þessu? Bíddu, hvar er maturinn? Hvar er fæðuöryggið? Af hverju var ekki nokkur maður eða nokkur ríkisstjórn búin að gera neitt fyrir löngu síðan? Og olíubirgðir. Það er bara ótrúlegt að hér skuli ekki vera olíubirgðir. Landbúnaður virkar ekki nema við höfum olíu t.d. Þegar flutningsleiðir lokast, þegar áföll dynja yfir á meginlandinu og annars staðar í heiminum þá erum við engin stærðargráða í því, við verðum algjör afgangsstærð í því að fara að færa okkur mat hingað.“