- Advertisement -

Ekki hefur tekist að brjóta öryrkja niður

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Í tæpa 24 mánuði hafa stjórnvöld reynt að brjóta Öryrkjabandalag Íslands og öryrkja yfirleitt á bak aftur. Það hefur verið reynt að kúga öryrkja til þess að samþykkja starfsgetumat í skiptum fyrir að stjórnvöld afnemi krónu móti krónu skerðingu! Ég óttaðist það um tíma að Öbí hefði látið kúga sig. Það er vissulega erfitt fyrir Öryrkjabandalagið að standast stanslaust ofbeldi og kúgun í tæp 2 ár. En mér virðist, að Öbí hafi staðist atlöguna. Með því hefur forusta Öbí sýnt mikið hugrekki.

En hættan er ekki liðin hjá. Ég tel þessar aðfarir, sem beitt er gegn öryrkjum vera kolólöglegar. Og það þarf svo sannarlega að höfða mál gegn þeim aðilum, sem beita þessu ofbeldi og kúgun gegn öryrkjum. Og ég tel, að öryrkjar eigi rétt á bótum fyrir alla þá fjármuni, sem búið er að hafa af þeim vegna krónu móti krónu skerðingarinnar, sem þeir hafa sætt síðustu tvö árin.
Bergþór H. Þórðarson, sem á sæti í kjararáði Öbí skrifar grein um kúgunina gegn öryrkjum.

Hann segir: „Öryrkjar neita að leyfa stjórnvöldum að kúga sig til hlýðni. Það þarf enga kerfisbreytingu til að afnema krónu móti krónu skerðinguna. Það þarf aðeins að samþykkja frumvarp Halldóru Mogensen, frumvarp sem felur í rauninni ekkert annað í sér en að hækka tekjutryggingu öryrkja, þannig, að krónu móti krónu skerðingin fellur niður.
Í heilsíðuviðtali við Þuríði Hörpu formann Öbí kemur skýrt fram, að hún hefur ekki látið stjórnvöld brjóta sig niður; þeim hefur ekki tekist að kúga hana til þess að samþykktja starfsgetumat í skiptum fyrir afnám krónu móti krónu skerðingar. Þuríður Harpa segir, að lífeyrir öryrkja frá TR sé aðeins 238 þús á mánuði fyrir skatt, 204 þús kr á mánuði eftir skatt. Þetta er lægra en atvinnuleysisbætur sem eru 270 þús á mánuði. Síðustu 20 árin hafi orðið 51% kjaragliðnun hjá öryrkjum. Með krónu móti krónu skerðingunni sé verið að dæma öryrkja til fátæktar.

Ég skora á stjórn Öbí að standast áfram atlögu stjórnvalda að þeim. Ég hef fylgst náið með stjórnmálum í 70 ár en hef aldrei áður orðið vitni af jafn grófu ofbeldi og tilraun til kúgunar og síðustu 24 mánuði, þegar stjórnvöld hafa stanslaust reynt að kúga öryrkja til hlýðni; hafa reynt að kúga þá til að samþykkja starfsgetumat og svipt þá kjarabótum,sem þeir eiga rétt á. Verst finnst mér hvað margir loka augunum fyrir þessu ofbeldi, hvað fái stjórnmálamenn og flokkar fordæma þessar aðfarir .Þetta er „ógeðslegt“ eins og Styrmir segir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: