- Advertisement -

Eldri borgarar í mál gegn ríkinu

Ég fagna því að væntanlega styttist í málaferli við ríkið.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Samþykkt var á aðalfundi FEB í febrúar fyrir ári að stofna sjóð til að kosta málaferli við ríkið. Aðilar verði FEB og Grái herinn en FEB stofnaði þann her. Jafnframt var samþykkt að stofnframlag yrði 500 þúsund krónur. Félagar í FEB og Gráa hernum, sem unnið hafa að undirbúningi málsóknar gegn íslenska ríkinu vegna tekjutenginga lífeyris almannatrygginga, áforma að stofna sjóð sem hefði þann eina tilgang að standa undir kostnaði af málarekstrinum. Ætlunin er að sjóðurinn verði sjálfstæður með sérstaka skipulagsskrá og stjórn og uppfylli skilyrði laga nr.19/1988. Þannig verði fullkomið gagnsæi og öryggi í starfsemi sjóðsins tryggt, þannig að hann geti notið óskoraðs trausts bæði þeirra sem styðja hann með framlögum og þeirra sem muni eiga hagsmuni undir honum.“ Fram kom að þegar lægju fyrir loforð frá VR um eina milljón króna framlag í sjóð og frá Verkalýðsfélaginu Framsýn um 100 þúsund krónur auk loforða frá einstaklingum.

Ég fagna því að væntanlega styttist í málaferli við ríkið vegna skerðinga lífeyris TR af völdum lífeyrissjóða. Ég vil þó leggja mikla áherslu á það, að vandað verði vel til málaferlanna og þau undirbúin vel. Þegar kjaranefnd FEB í Rvk undir minni forustu undirbjó málaferli við ríkið fékk nefndin tvo lögfræðinga til ráðuneytis. Þeir lögðu mikla áherslu á, að málið yrði undirbúið mjög vel og staklega að safnað væri nægum gögnum því til staðfestingar, að lífeyrissjóðirnir hafi átt að vera hrein viðbót við almannatryggingar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er lítið sem ekkert til af skriflegum gögnum um, að lífeyrissjóðirnir hafi átt að vera hrein viðbót. Það þarf því að fá skriflegar yfirlýsingar og staðfestingar á því, að lífeyrissjóðirnir eigi að vera viðbót við almannatryggingar. Eldri verkalýðsleiðtogar, sem voru uppi, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, geta væntanlega staðfest þetta. Væntanlega finnast einnig gögn um málið hjá ASÍ. Ef ekki finnast næg gögn þessu til staðfestingar óttast ég um afdrif málaferla.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: