- Advertisement -

Enginn flokkur með forystu í baráttu fyrir aldraðra og öryrkja

Stjórnmálaflokkur eða flokkar geta tekið sig á í þessu efni. Vonandi gera þeir það.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Segjum, að íslenskur eldri borgari, sem búið hefði lengi erlendis, kæmi til landsins til þess að eyða ævikvöldinu hér og vildi athuga hvaða stjórnmálaflokkur hefði ótvíræða forustu í baráttu fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja; þá fyndi hann ekki þann flokk. Sá flokkur er ekki til.

Það er enginn stjórnmálaflokkur á alþingi, sem hefur ótvíræða forustu í því að berjast fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja. Einstakir þingmenn flytja eina og eina tillögu um atriði, sem bætt geta kjör aldraðra og öryrkja; til dæmis flutti Ólafur Ísleifsson þá þingmaður Flokks fólksins ágæta tillögu um skattfrelsi lægstu tekna, sem mundi hafa þýtt skattfrelsi lífeyris aldraðra og öryrkja og Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar flutti breytingatillögu við fjárlagafrumvarpið sem gerði ráð fyrir verulegri hækkun á framlögum til aldraðra og öryrkja. Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins hefur einnig verið duglegur að flytja einstakar tillögur um hagsmunamál aldraðra og öryrkja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fleiri þingmenn hafa flutt einstakar slíkar tillögur en enginn flokkur hefur flutt heildstæða tillögu eða frumvarp um hækkun lífeyris aldraðra og öryrkja. Til dæmis hefur enginn flokkur flutt tillögu um að hækka lægsta lífeyrinn þannig að hann dugi til framfærslu; samt er þessi lífeyrir það lágur, að ekki er unnt að lifa af honum, heldur er hann við sultarmörk!

M.ö.o.:Enginn flokkur á alþingi hefur ótvíræða forustu í baráttu fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja. Sá flokkur er ekki til í dag. Íslenski eldri borgarinn, sem dvalist hefur lengi erlendis yrði því í vandræðum með að kjósa, ef hann vildi fara eftir því hvaða flokkur gætti best kjara og hagsmuna eldri borgara. En þetta getur breyst. Stjórnmálaflokkur eða flokkar geta tekið sig á í þessu efni. Vonandi gera þeir það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: