- Advertisement -

Er dauðastund Sjálfstæðisflokksins framundan?

Verður flótti frá XD yfir til Miðflokksins.

Víst er að átökin innan Sjálfstæðisflokksins eru mikil. Og hörð. Orkupakkinn skekur flokkinn nú. Áður var það Icesave. Davíð Oddsson hefur margsagt að núverandi forysta flokksins hafi tapað miklu, af fylgi flokksins, með afstöðunni til Icesave.

Orkupakkinn stendur í flokknum. Margir málsmetandi flokksmenn hafa hvergi sparað sig í umræðunni. Þar fer einna fremstur Styrmir Gunnarsson. Hann útilokar ekki að dagar Sjálfstæðisflokksins séu brátt taldir. Á vefsíðu hans, styrmir.is, má lesa þetta:

„Ný könnun á fylgi flokka í Bretlandi, sem gerð var fyrir Sunday Telegraph, bendir til að Íhaldsflokkurinn mundi tapa 59 þingsætum, ef kosið yrði nú. Þessi niðurstaða bendir til að kjósendur séu í hefndarhug gagnvart flokknum, vegna þess, að hann hefur klúðrað BREXIT.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Davíð og Styrmir fara fremst í stjórnarandstöðunni í Sjálfstæðisflokknum.

Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart í ljósi þess að í þjóðaratkvæðagreiðslunni um BREXIT snerist baráttan að verulegu leyti um að „take back control“, þ.e. að Bretar tækju aftur í sínar hendur stjórn sinna mála að því er fram kom í umhugsunarverðri leikinni heimildarmynd um þá kosningu, sem RÚV sýndi fyrir skömmu.

Ef sú hugsun sem þar lá að baki er yfirfærð yfir á íslenzkar aðstæður, er það alvarlegt umhugsunarefni fyrir núverandi stjórnarflokka og þingmenn þeirra, hvort þeim detti í hug að kjósendur hér mundu fyrirgefa þeim, sem síðar kæmi í ljós að hefðu selt erlendu valdi yfirráð yfir einni af helztu auðlindum Íslands með óafturkallanlegum hætti.

Í Bretlandi er nú rætt um, hvort dagar Íhaldsflokksins séu taldir.

Það skyldi þó aldrei vera að slík örlög bíði einhverra þeirra flokka, sem nú stunda það á Alþingi að leika sér að fjöreggi íslenzku þjóðarinnar.“

Ekki fer á milli mála að alvara býr að baki. Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn sjá þetta og spila á óánægjuna í Sjálfstæðisflokknum. Hvort svo fari að flótti bresti á flokksfélaga í Sjálfstæðisflokki er alls ekki víst.

Hitt er aftur ljóst að vandi Sjálfstæðisflokksins er ærinn. Áttatíu ára afmæli flokksins verður minnst í haust. Grunur sumra, og vilji, er sá að Bjarni Benediktsson, sem þá hefur verið formaður í réttan áratug, gefi ekki kost á sér til endurkjörs.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: