„En það virðist fjarri því að vera rétt mat. Augljóst er að almennir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ákveðið að komast frá öllum vandræðaganginum í stjórninni með því að skilja hvað eina, sem eftir er af honum eftir í fanginu á Flokki fólksins.“
„Ríkisstjórn landsins er um þessar mundir óneitanlega dálítið hikandi í störfum sínum, svo að fáir vita hvort hún er að koma eða fara. Nokkur pínleg vandræðamál hafa óneitanlega lent á hennar borði og hún hefur verið óþægilega hikandi við lausn þeirra, og slík framganga er að sjálfsögðu ekki til þess fallin að skapa öryggi og traust, þegar svo hikandi er gengið um garða,“ segir seint í Reykjavíkurbréfi dagsins í Moggahróinu.
Meiri hluti skrifanna er þó um Trump hinn mikla.

„Það er þó talin þekkt regla að þriggja flokka ríkisstjórn er einatt fjarri því að vera til þæginda, og eru til margföld dæmi þess fyrr og síðar,“ skrifar foringinn gamli.
Svo er við hæfi að ganga í þann hóp Sjálfstæðismanna sem hnýta í Bjarna blessaðan Ben:
„Síðasta ríkisstjórn á undan þessari sem nú situr var raunar talandi dæmi um þetta sama, og flokkarnir sem þá sátu gerðu þau reginmistök að höggva ekki á þann hnút í tæka tíð. Nú verður ekki betur séð en að ríkisstjórnin sé smám saman að koma sér í vandræði um land allt og stuðla enn fremur að óþarfa óróleika, og er þessi staða sérkennilega óþægileg, ekki síst þar sem ekki þurfti endilega að gera ráð fyrir óefni af þessu tagi.“
Þá er komið að sneiðinni hennar Ingu Sæland og hennar fólks:
„Annað mál er enn fjarri því að vera dáið, sem er næsta undarlegt, þar sem augljóst var að ríkisstjórnin taldi sig hafa fullt vald á því og styrk til þess að koma því út úr heiminum. En það virðist fjarri því að vera rétt mat. Augljóst er að almennir talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ákveðið að komast frá öllum vandræðaganginum í stjórninni með því að skilja hvað eina, sem eftir er af honum eftir í fanginu á Flokki fólksins. Yrði það óneitanlega dálítið skrítið ef sú leikflétta gengi eftir og sú undarlega aðferð myndi takast. En hitt væri einnig sérkennilegt ef hin hernaðaráætlunin gengi ekki eftir, þegar Flokkur fólksins hefur frá fyrstu dögum stjórnarmyndunar, þegar leiðtogi hans varð að sætta sig við að nær allar áætlanir flokksins og stefnumið væru þurrkuð út, áður en endanlega var staðfest að mat samstarfsflokkanna væri að flokkurinn teldist ekki „stjórntækur“, eins og kallað er, og það þótt sú skilgreining sé auðvitað næsta óskiljanleg, einkum þegar „óstjórntæki“ flokkurinn hefði þurft að þola þá einkunn, þótt hann hefði verið algjörlega flakaður, og það inn að beini. Það fer ekki fram hjá neinum, hvorki hjá þingi né þjóð, að það hefur ekki verið haldið á þessum þætti með frambærilegum hætti.“