- Advertisement -

„Er hægt að leggjast lægra í drullusvað fjármálanna hjá ríki og sveitarfélögum?“

„Ríkisstjórn og sveitarfélög, hættið þessu fjárhagslega ofbeldi gagnvart fötluðum og þá einnig að skatta fátækt.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Þetta er allt fötluðum að kenna. Já, þetta er allt saman fötluðum að kenna,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson Flokki fólksins á Alþingi í gærdag.

„Málflutningur ríkis og sveitarfélaga, þar sem aftur og aftur er talað niður til fatlaðs fólks, um þunga fjárhagsbyrði er algerlega óþolandi og ólíðandi með öllu. Í augum ríkis og sveitarfélaga eru fatlaðir bara kostnaður og ástæðan fyrir stórum hluta af hallarekstri þeirra. Sveitarfélögin telja að það vanti milljarða króna á ári í tekjur vegna málefna fatlaðs fólks til að standa undir kostnaði. Hvers vegna eru bara málefni fatlaðs fólk kostnaður hjá ríki og sveitarfélögum? Eru mannréttindi bara kostnaður hjá fötluðu fólki en engu öðru fólki? Ríki og sveitarfélög eru að nota fatlað fólk sem blóraböggul fyrir eigin vanhæfi í fjármálum og getuleysi sitt til að semja rétt um málefni þeirra. Er hægt að leggjast lægra í drullusvað fjármálanna hjá ríki og sveitarfélögum en að ráðast á þá veikustu og fátækustu og þá sem síst geta risið upp sér til varnar? “

Guðmundur Ingi hafði ekki klárað það sem hann vildi segja:

„Að ráðast á þá einstaklinga sem standa nú þegar hvað höllustum fæti gagnvart pólitíkinni og stjórnsýslunni er fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð og högg sem er langt undir beltisstað og málflutningur viðkomandi til ævarandi skammar, þ.e. ef þeir kynnu yfir höfuð að skammast sín.

Hver er síðan þessi kostnaður sveitarfélaga vegna eigin getuleysis í samningum við ríkið um málaflokkinn. Jú, búseta, þ.e. húsnæði. Kostar að byggja húsnæði fyrir fatlað fólk en ekki aðra? Ja, hérna þetta vissi ég ekki. Börn með þroska- og geðhamlanir eru einnig kostnaður. Vá, þvílíkur kostnaður. Þetta eru einstaklingar sem eiga fullan rétt á aðstoð samkvæmt stjórnarskránni, mannréttindum og samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Að gefnu tilefni: Ríkisstjórn og sveitarfélög, hættið þessu fjárhagslega ofbeldi gagnvart fötluðum og þá einnig að skatta fátækt,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: