- Advertisement -

Er í lagi að stórir hópar hafi það lágar tekjur að þær dugi ekki til framfærslu?

Hátt í tíu þúsund fjölskyldur misstu heimilið sitt og einhverra hluta vegna töldu stjórnvöld sniðugast að hrægammar Íslands fengju að eignast þetta húsnæði.

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Þykir það í lagi í íslensku þjóðfélagi, að stórir hópar hafi það lágar tekjur, að líklega er ómögulegt fyrir þá að framfleyta sér af þessum tekjum, a.m.k. ekki með góðu móti? Er hreinlega ætlast til þess að stórir hópar þurfi að treysta á að maki þeirra eða jafnvel börn „skaffi“ nógu vel til að vega upp eigin tekjuskort eða að fólk þurfi að vera í mörgum störfum?

Fyrir langa löngu tók ég þátt í kjaraviðræðum fyrir framhaldsskólakennara. Þar hafði einstaklingur úr samninganefnd ríkisins í flimtingum, að ekki þyrfti að hækka laun kvenkynskennara, þær ættu hvort eð er fyrirvinnu. Þetta átti að vera kaldhæðinn brandari, en í gegn um hann skein viðhorf sem er til kvennagreina:

Þú gætir haft áhuga á þessum

…samt eru stórir hópar í miklum tekjuvanda.

Það er í lagi að tekjum kvenna sé haldið niðri, vegna þess að engin alvara er í atvinnuþátttöku þeirra og karlinn mun sjá fyrir þeim. Um leið og gefur á bátinn muni þær hvort eð er draga sig í hlé inn á heimilið.

Það getur verið að þetta hafi verið reyndin hér á árum áður, þ.e. fyrir 80-100 árum eða jafnvel bara 50-60 árum, hjá einhverjum hluta kvenna. Á þeim tíma, þegar þær áttu að finna sér mann, gifta sig, eignast börn og buru, sjá um uppeldið og loks halda heimilinu fínu. Svo breyttist heimurinn. Hjónabönd máttu bresta, það var í lagi að einstæðar mæður byggju einar með börnunum sínum, öryrkjum fjölgaði, þjóðfélagið þurfti á öllum vinnandi höndum að halda, þeim fjölgaði fjölskyldunum þar sem konur voru eina fyrirvinna heimilisins.

Ekki það, að alltaf hafa verið konur sem hafa mátt sín lítils í þjóðfélaginu. Þurft að skrimta á því sem þeim var rétt. Sinna störfum, sem enginn annar vildi sinna. Svona eins og sú sem Davíð Stefánsson [leiðrétting: fór rangt með nafn höfundar og hafði áður Steinn Steinarr] orti um í ljóði sínu Konan sem kyndir ofninn minn og segir m.a.:


Ég veit að þessi kona
er vinafá og snauð
af veraldlegum auð,
að launin, sem hún fær,

eru last og daglegt brauð.

Hvorki þessi kona né margar kynsystur hennar, sem á eftir henni hafa gengið, hafa átt „fyrirvinnu“ heima sem bætir þeim upp lélegar tekjur með sínum tekjum. Oft einstæðar mæður sem eiga ekki marga möguleika til viðbótartekjuöflunar.

Hækkun tekna náði ekki að halda í við hækkun leigunnar.

Ísland er með ríkustu löndum í heimi, en samt eru stórir hópar í miklum tekjuvanda. Eftir hrun urðu gríðarlegar breytingar. Hátt í tíu þúsund fjölskyldur misstu heimilið sitt og einhverra hluta vegna töldu stjórnvöld sniðugast að hrægammar Íslands fengju að eignast þetta húsnæði. Það varð til þess, að sá árangur sem hafði náðst með góðum kjarasamningum frá Þjóðarsáttarsamningum fyrir 30 árum, varð að engu. Fjölskyldum var vísað á götuna og eina leiðin til að fá þak yfir höfuðið var að fara í rándýrt leiguhúsnæði á skammtímaleigusamingi sem hækkaði um tugi prósenta á hverju ári, vegna þess að leigusalarnir komust upp með það. Leiga fyrir 2-3 herbergja íbúð, sem hentaði einstæðu móðurinni með barnið sitt (eða börnin sín) fór frá því að kosta 30-40% af ráðstöfunartekjum í að kosta 90-95% af ráðstöfunartekjum, þrátt fyrir miklar launahækkanir. Launin sem áður höfðu dugað til að litla fjölskyldan náði að láta sér líða vel, gerðu það ekki lengur. Jafnvel þó börnin yxu úr grasi og flyttu af heiman, þá varð ekkert meira eftir af laununum. Hækkun tekna náði ekki að halda í við hækkun leigunnar.

Í núverandi lotu kjarasamninga eru að stíga fram stórar stéttir, þar sem konur eru í miklu meirihluta. Það er verið að reyna að rétt hlut þeirra, vegna þess að góðæri eftirhrunsáranna gleymdi að koma við hjá þeim, en að kom við hjá leigusölum þeirra. Biðin eftir félagslegu húsnæði hefur lengst og aðferðirnar til að meta þörfina virðast draga úr líkum á því að fólk komist í svona húsnæði. Leigufélög, sem fengu að kaupa heilu blokkirnar á kostakjörum gegn því að leiguverði væri haldið niðri, hafa reynst úlfar í sauðargærum. Þó krafan hafi verið óhagnaðardrifin útleiga, þá hefur hagnaðurinn verið upp á milljarða á hverju ári. Góðærið var byggt á því að færa peninga frá almenningi til fjármagnseigenda, eins og endurreisn bankakerfisins fólst í því að hirða eignir af heimilunum og fyrirtækjum og færa í hendur útvalinna. Menn skammast sín svo fyrir þessa framgöngu, að stjórnvöld þrjóskast við að gefa upp nöfn þeirra sem fengu að nota fjárfestingarleið Seðlabankans eða kaupa yfirtökueignir af Íbúðalánasjóði og bönkunum. Við megum ekki vita hverjir urðu nýríkir með hjálp þessara aðila og á okkar kostnað.

Þetta snýst um þann sjálfsagða rétt íbúa eins ríkasta þjóðfélags í heimi, að fólk hafi möguleika á að hafa það bærilegt.

Ég hef svo sem ekki kynnt mér neitt sérstaklega kröfugerð Eflingar fyrir hönd sinna umbjóðenda, frekar en ég kynnti mér kröfugerð BHM eða annarra stétta. Enda snýst þetta ekki í mínum huga um krónur og aura. Þetta snýst um þann sjálfsagða rétt íbúa eins ríkasta þjóðfélags í heimi, að fólk hafi möguleika á að hafa það bærilegt með því að vera í einu starfi eða gagnvart lífeyrisþegum, á þeim greiðslum sem koma úr lífeyrissjóðum og/eða almannatryggingum. Þetta snýst um það, að enginn einstaklingur sé neyddur til þess að búa með öðrum aðila til að vega upp mismuninn á eigin ráðstöfunartekjum og því sem kostar að skapa sér slíkt bærilegt líf. Margir velja að hafa það fyrirkomulag, að í tilfellið tveggja fyrirvinna, þá hefur önnur aðalframfærsluskylduna. Það er val. Ég er ekki að tala um þau tilfelli. Ég er að tala um þá sem ekki hafa val eða eiga ekki möguleika á hinum kostinum, þ.e. það er bara ein fyrirvinna.

Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: