- Advertisement -

Er Samherjaarfurinn sýndargjörningur?

Óttast menn einhverjar aðgerðir gegn stofnendum fyrirtækisins og er verið að koma eignum í var?

Marinó G. Njálsson skrifar:

Arfur sem eigendur Samherja ætla að láta ganga til barna sinna hefur vakið athygli. Ekki vegna þess að börnin eigi að erfa foreldra sína, heldur vegna þess að valin er sú leið að greiða hann út meðan foreldrarnir eru í fullu fjöri og eiga hugsanlega einhverja áratugi eftir af lífsævinni. Kannski býr eitthvað að baki sem ekki hefur komið fram.

Að börn eigenda Samherja muni erfa foreldra sínar er bara gangur lífsins. Þannig eru leikreglur íslensks samfélags og þær bjóða m.a. upp á fyrirframgreiddan arf. Að upphæðirnar hlaupi á milljarðatugum er hins vegar eitthvað sem ekki hefur gerst áður, en vissulega hafa milli 2-3 milljarðar gengið til afkomenda með slíkum arðgreiðslum áður en foreldrið hefur verið fallið frá. Vona ég að Samherjabörnin fari ekki í mál hvert við annað til að klára skiptin, eins og gerðist hjá þeim Pálsbörnum árið 2006.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Af því má álykta að um sýndargjörning sé að ræða.

Margir hafa skrifað um þennan gjörning eigenda Samherja og haft hátt um. Ég eins og margir, furða mig á tímasetningunni og framkvæmdinni, því ekki ætla feðurnir að draga sig í hlé og setjast í helgan stein. Af því má álykta að um sýndargjörning sé að ræða. Væri virkilega ætlunin að færa stjórn fyrirtækisins til afkomendanna, þá héldu feðurnir ekki áfram um taumana í rekstri fyrirtækisins. Annað er að eignaryfirfærslan er í tvennu lagi, þ.e. fyrirframgreiddur arfur annars vegar og hins vegar kaupa börnin hinn hluta hlutabréfanna af foreldrum sínum. Það getur varla verið gert nema með seljendaláni, því varla fara börnin út í banka og slá lán upp á tugi milljarða. Þó þau hafi örugglega aldrei þurft að hafa áhyggjur af því að eiga fyrir salti í grautinn, þá voru eignir þeirra varla nokkuð til að tala um (borið saman við virði Samherja) áður en gjörningurinn gekk í gegn.

Þetta er augljóslega vel hugsuð aðgerð og verður áhugavert að sjá hvernig vinnst úr kaplinum. Börnin þurfa að greiða 10% erfðafjárskatt af fyrirframgreiddum arfi. Sú tala hleypur á einhverjum milljörðum og verður hann vart greiddur nema með sölu hlutabréfa nema arðgreiðslur verði það háar, að þær dekki erfðafjárskattinn. Samherjaforeldrarnir þurfa síðan að greiða fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfanna sem seld verða til barnanna. Fjármagnstekjuskattur er 22%. Ekki er ljóst hvað telst vera söluhagnaður í þessu tilfelli, þar sem stofnverð hlutabréfanna sem notað er við útreikning á söluhagnaðinum er óljóst. Reikna má samt með því að fjármagnstekjuskatturinn hlaupi á einhverjum milljörðum.

…ef í ljós kemur að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað.

Eins og ég nefni áður, þá finnst mér þetta lykta af því að vera sýndargjörningur (en ég vona að hafi rangt fyrir mér um það). Eru menn að óttast einhverjar aðgerðir gegn stofnendum fyrirtækisins og verið að koma eignum í var? Ég veit það ekki. Fyrst þeir ætla hins vegar að halda áfram að standa í brúnni og gefa út skipanir til hægri og vinstri, þá lítur ekki út fyrir að um kynslóðafærslu sé að ræða. Framtíðin mun hins vegar leiða það í ljós.

Einn sem skrifað hefur um málið, talar um það eins verið sé að færa kvótann sem arf á milli kynslóða. Það er náttúrulega ekki verið að því, þar sem hægt er að taka kvóta af fyrirtækjum með því einu að breyta lögum. Eignarhald á fyrirtæki breytir engu um það hvort hægt er að svipta það heimildum. Raunar er fáránlegt að tengja þetta tvennt saman. Það er hugsanlega sú mynd sem menn vilja teikna um og verði Samherji sviptur kvóta (sem ég er ekki að segja að standi til), þá sé verið að taka „eignir“ af börnunum og þau eigi ekki að taka á sig syndir feðranna. Börnin erfðu og keyptu hlutafé frá foreldrum sínum og þeim fylgja allar hugsanlegar syndir feðranna. Það er díllinn og fortíðin verður ekki þurrkuð út án þess að hún verði gerð upp, ef í ljós kemur að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: