- Advertisement -

Er stjórn Katrínar verri en stjórn Sigurðar Inga?

Báðar stjórnirnar refsa öryrkjum. „Þetta er ekkert annað en blekkingarleikur stjórnvalda gagnvart öryrkjum.“

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson, skrifar: Haustið 2016 var ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks við völd undir forsæti Sigurðar Inga. Sú stjórn vildi koma á starfsgetumati öryrkja í stað læknisfræðilegs örorkumats rétt eins og núverandi stjórn reynir með öllum ráðum.

Öryrkjabandalagið tilkynnti ríkisstjórn Sigurðar Inga að það væri ekki tilbúið til þess að samþykkja starfsgetumat. Þetta mat hefði reynst illa erlendis t.d. í Bretlandi og Öbí gæti ekki samþykkt það. Þáverandi ríkisstjórn ákvað þá að falla frá starfsgetumatinu en í hefndarskyni tilkynnti ríkisstjórnin til Öbí, að öryrkjar fengju þá engar „kjarabætur.“

Krónu móti krónu skerðingin yrði ekki afnumin hjá öryrkjum eins og öldruðum! Það var „refsingin“, sem ríkisstjórn Sigurðar Inga beitti öryrkjum og þessi refsing hefur nú verið í gildi í tæp 2 ár og í 1 ár hefur flokkur KJ beitt öryrkjum þessari refsingu þó sá flokkur hafi lýst því yfir 2016, að hann vildi afnema krónu móti krónu skerðingu. Er ekkert að marka hvað stjórnmálamenn segja?

Núverandi ríkisstjórn hefur undanfarið stundað sömu iðju gagnvart öryrkjum og ríkisstjórn Sigurðar Inga stundaði. Ríkisstjórn KJ hefur þjarmað að öryrkjum, beitt kúgun og ofbeldi rétt eins og fyrri stjórn gerði en starfsaðferðirnar eru jafnvel lúmskulegri en áður. Það er stundaður einhver feluleikur; aldrei talað um starfsgetumat heldur talað um einhverja kerfisbreytingu, sem beðið sé eftir. Þetta er ekkert annað en blekkingarleikur stjórnvalda gagnvart öryrkjum. Það þarf enga kerfisbreytingu til þess að afnema krónu móti krónu skerðingu. Þetta er nákvæmlega sama breytingin og átti sér stað hjá öldruðum, þegar krónu móti krónu skerðing var afnumin hjá þeim. Þá var tekjutryggingin hækkuð og hætt að skerða framfærsluuppbótina vegna aukatekna,sem aldraðir höfðu. Búið var að lofa öryrkjum því sama en það var svikið. Þessa breytingu kalla ég ekki kerfisbreytingu. Ef ríkisstjórnin á við starfsgetumatið, þegar hún talar um kerfisbreytingu er miklu einfaldara að tala um starfsgetumat í stað kerfisbreytingar,kalla hlutina réttum nöfnum.

Ég trúi því ekki að ríkisstjórn KJ ætli að innleiða starfsgetumat í berhögg við Öryrkjabandalagið og öryrkja almennt. Ríkisstjórnin væri þá miklu meiri afturhaldsstjórn en ríkisstjórn Sigurðar Inga.

Starfsgetumat lítur vel út á pappír en í framkvæmd er það mjög erfitt mál sem misheppnaðist algerlega í Bretlandi. Þar leiddi það til hrinu sjálfsmorða. Ef hugleiða ætti starfsgetumat í alvöru þyrfti að byrja á því kortleggja atvinnumarkaðinn og rannsaka hvað fyrirtækin væru reiðubúin til þess að ráða marga öryrkja í hlutastörf og full störf. Slíkur undirbúningur tæki nokkur ár.

Síðast þegar Öbí fjallaði um starfsgetumat í alvöru vildi bandalagið koma á fót stofnun til þess að hafa þetta verkefni með höndum,rannsóknir og vinnumiðlun. Stjórnvöld höfðu ekki áhuga á þeirri leið. Það eina, sem stjórnvöld virðast hafa áhuga á er að svipta sem flesta öryrkja lífeyri sínum svo þau geti birt tölur um fækkun öryrkja. Öryrkjar geta ekki tekið þátt í slíkum starfsaðferðum. Þeir eiga sinn rétt eins og aðrir í þjóðfélaginu. Og samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra eiga fatlaðir/öryrkjar að njóta sömu réttinda og ófatlaðir.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: