- Advertisement -

Eyðileggingarmáttur kvótakerfisins

Stjórnmálamenn sáu um að sjávarútvegur á Akranesi og vítt og breitt um landið dó!

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Þetta er listi yfir þrjátíu stærstu fyrirtækin á Íslandi árið 1979, en í þrítugasta sæti á þessum lista er útgerðarfyrirtækið Haraldur Böðvarsson & co sem var algjör burðarstólpi í atvinnulífi okkar Akurnesinga, allt til ársins 2017.

Vilhjálmur Birgisson:
Eitt er víst að þessi lagagrein hefur margoft verið brotin af hinum ýmsu útgerðarmönnum.

Í dag er allt farið eða með öðrum orðum fyrirkomulag sem stjórnmálamenn hafa búið til í kringum sjávarútveg hefur leitt til þess að búið er að slátra nánast öllum sjávarútvegi á Akranesi og reyndar vítt og breitt um landið.

Það er þyngra en tárum taki að sjá hvernig aflaheimildir hafa þjappast á örfáar hendur með skelfilegum afleiðingum fyrir hinar dreifðu byggðir þessa lands. Byggðir sem hafa verið að reiða sig á veiðar og vinnslu sjávarafurða.

Á myndinni að ofan sést hvað HB & co var okkur Akurnesingum gríðarlega mikilvægt, en eins og sjá má þá voru meðallaun hjá þessu fyrirtæki þau næstmestu á öllu landinu árið 1979.

Það er ömurlegt að það sé hægt að svipta heilu byggðarlögunum lífsviðurværi sínu eins og gerðist hjá okkur og víðar um landið á einni nóttu og það þrátt fyrir lög um stjórn fiskveiða eigi að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu en í lögunum segir orðrétt:

1. gr.
Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Eitt er víst að þessi lagagrein hefur margoft verið brotin af hinum ýmsu útgerðarmönnum.

En eitt er líka víst að það er ekki lengur við hæfi að syngja „kátir voru karlar á kútter Haraldi til fiskiveiða fóru frá Akranesi og allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó“

Jú allir komu þeir aftur heim, en stjórnmálamenn sáu um að sjávarútvegur á Akranesi og vítt og breitt um landið dó!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: