- Advertisement -

Eyþór og „Dressmanntríóið“

Fyrir fjórum árum fannst sjálfstæðismönnum í Reykjavík þeim hafa tekist einstaklega illa upp með prófkjör flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna. Halldór Halldórsson var í fyrsta sæti, svo Júlíus Vífill Ingvarsson og loks Kjartan Magnússon. Af sumum kallaðir „Dressmanntríóið“. Allir eins.

Þrátt fyrir ólundina náði flokkurinn 25,7 prósentum atkvæða í þeim kosningum. Nú átti að gera betur. Eyþór Arnalds var fenginn til að koma á ný til borgarinnar og hannað var leiðtogaprófkjör fyrir hann. Eyþór sigraði þar með umtalsverðum mun. Þeim sem fyrir voru var ýtt burt. Nýtt lið var fengið og átti að hefja nýja sókn.

Þá birtast vonbrigðin. Hvorki gengur né rekur. Fylgið mælist nánast það sama og í kosningunum fyrir fjórum árum. Áhlaup á borgina er sýnilega ekki eins einfalt og Eyþór og hans fólk hugði. Í stað þess að hvetja sitt fólk áfram í sókn neyðist Eyþór til að verja kröftum til halda liðinu saman, gæta þess að ekki sæki flótti á mannskapinn.

Með velheppnuðu framboði og tryggum málflutningi eru sóknarfæri í Reykjavík. Þar sem margt er að. Eyþóri hefur ekki auðnast að sækja fram. Hann hefur hrakist í vörn með eigin málflutning og þess vegna gefst honum ekki svigrúm til sóknar. Fyrir Sjálfstæðisflokkinn er staðan áfall. Annað er óhugsandi.

Það sem átti að vera gaman er að verða leiðinlegt. Það er ekki spennandi að festast í hjólfari forveranna. Sem þótti slæmt og kallaði á fullkomna breytingu á framboðinu. Það getur ekki verið spennandi að hökta áfram á urðinni. Kannski finnur Eyþór eitthvað til að snúa stöðunni við. En hvað? Það veit enginn og kannski síst Eyþór Arnalds.

 

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: