- Advertisement -

Fær skúringarfólkið að borða í mötuneytunum?

Tillögu Sjálstæðismanna vísað frá. Óþarfi að breyta því sem þarf ekki að breyta, segir meirihlutinn.

Stjórnmál Meirihlutinn, í borgarstjórn, vísað frá tillögu um ræstingarfólki verði heimilt að borða í mötuneytum Reykjavíkurborgar í ráðhúsinu og í Höfðatorgi.

„Líkt og fram kemur í umsögn skrifstofu þjónustu og reksturs hefur starfsfólki verktaka við störf í stjórnsýsluhúsum alltaf verið heimilt að nýta sér mötuneyti borgarinnar. Skrifstofan hefur sett sig í samband við verktaka til að minna á að þetta er heimilt. Tillögunni er því vísað frá þar sem hún gengur út á að breyta því sem ekki þarf að breyta,“ segir í bókun meirihlutans þegar ákveðið var að vísa frá tillögu Sjálfstæðismanna.

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað fengið ábendingar um að starfsfólk verktaka, sem sinnir ræstingum í Ráðhúsi og Höfðatorgi, hafi ekki aðgang að mötuneytum á þessum stöðum. Hafa þessar ábendingar verið sannreyndar með fyrirspurnum til starfsmanna þessara mötuneyta. Ljóst er því að þarna er pottur brotinn, þótt borgarstjórnarmeirihlutinn kannist ekki við það, og úr því þarf að bæta. Ánægjulegt er ef tillaga Sjálfstæðisflokksins verður til þess þótt meirihlutinn kjósi að vísa tillögunni frá til að breiða yfir það klúður, sem þetta mál óneitanlega er,“ segir hins vegar í bókun Sjálfstæðisflokksins.

Miðjan hefur áður fjallað um þetta deilumál. Upphaflega tillaga Sjálfstæðisflokksins var svohljóðandi:

„Hópur starfsfólks vinnur gott starf við ræstingar eða önnur sambærileg störf í þágu Reykjavíkurborgar og hefur fasta starfsstöð í stofnunum, t.d. á Höfðatorgi eða í Ráðhúsi. Þessu starfsfólki er þó ekki heimilt að nýta sér þjónustu mötuneytanna  á þessum stöðum þar sem það er á vegum verktaka. Lagt er til að í samvinnu við viðkomandi verktaka verði umræddu starfsfólki heimilað að nýta sér þjónustu mötuneytanna á sömu kjörum og borgarstarfsmenn njóta.“

-sme

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: