- Advertisement -

Fátæku fólki á eftir að fjölga mikið

Líklegast verður launafólki bara boðið upp á blauta tusku í andlitið.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Fátæku fólki á eftir að fjölga mikið á Íslandi næstu mánuði. Sorglegt en satt. Gleðin yfir því hversu vel tókst til með veiruna á eftir að breytast í martröð hjá þeim fjölmörgu sem sigla nú inn í fátækt. Ríkisstjórnin sem er ánægð með sínar fylgistölur verður stúrin þegar fylgið fer að hrynja af henni og afglöpin koma enn betur í ljós. Um 7000 þúsund manns missa vinnuna í hópuppsögnum. Fyrstu 3 mánuðina eftir að uppsagnarfrestur rennur út, þá fá menn um 70% af launum sínum frá Vinnumálastofnun en síðan eru það berrassaðar atvinnuleysisbætur sem eru 290 þúsund á mánuði. Sem enginn getur lifað á. Þannig má gera ráð fyrir að allur þessi hópur atvinnulausra séu komnir á strípaðar bætur í jólamánuðinum. Og bætast þá í hóp hinna (öryrkjar og fólkið á lægstu laununum) sem ekki hafa efni á að halda jól og þurfa að bíða í biðröð hjá hjálparsamtökum.

Atvinnurekendur munu reyna að pína fólk.

Þetta er enginn smá fjöldi og enn á eftir að bætast við. Og þá eru ótaldir þeir sem er sagt upp en ekki í hópuppsögn. Þetta er líka svo alvarlegt vegna þess að atvinnurekendur munu reyna að pína fólk. Með því að bjóða þeim störf á ný, en aðeins ef það tekur á sig launalækkun. Kúgunarhnefi kapítalismans ógnar sem aldrei fyrr. Ef þú ekki þiggur lægri laun, þá færðu engan vinnu. Og til þess að styrkja þennan ógnandi hnefa hafa stjórnvöld boðið fyrirtækjum gull og græna skóga, alveg sama þau þó hafi rakað saman peningum, borgað arð og ofurlaun og átt svimandi háar upphæðir í skattaskjólum. Hlutabætur sem áttu að tryggja ráðningasamband breytist í greiðslur til fyrirtæki til að segja upp fólki. Svo eru það brúarlán og alls konar fyrirgreiðslur og greiðslufresti.

Hvað á að gera fyrir launafólk? Það hefur ekki komið fram. Líklegast verður launafólki bara boðið upp á blauta tusku í andlitið. Það verður jólagjöfin í ár til hinna vinnandi stétta.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: