„Þetta fólk fær að heyra í kjaraviðræðum að ekki sé svigrúm til launahækkana – því „stöðugleiki“ og „ábyrgð“ séu nauðsynleg.“
Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson skrifaði:

„Græðgin eins og hún var fyrir árið 2008 farin að birtast okkur að nýju. Fimm stjórnendur Ölgerðarinnar fengu allt að 28 milljónir í vasann – á einum degi. Þeir keyptu hlutabréf á niðurgreiddu verði og seldu þau strax með háum hagnaði. Gróði afhentur á silfurfati, án áhættu, án skuldbindingar – í skjóli hvataáætlunar sem hentar aðeins útvöldum á toppnum. Á sama tíma stendur fólkið á gólfinu vaktina – það sem heldur hjólum fyrirtækisins gangandi og skapar raunveruleg verðmæti.
Þetta fólk fær að heyra í kjaraviðræðum að ekki sé svigrúm til launahækkana – því „stöðugleiki“ og „ábyrgð“ séu nauðsynleg.
En hver á að axla ábyrgð á toppnum?
Lífeyrissjóðir landsmanna – Brú, Gildi, LV o.fl. – eiga samanlagt 37% í Ölgerðinni. Þeir eiga og reka þetta fyrirtæki fyrir okkar hönd. Þeir verða að svara:
Ætlið þið að þegja og samþykkja svona græðgi – eða standa með siðferði og almannahagsmunum?
Og til Samtaka atvinnulífsins sem boða að allir verði að axla ábyrgð til að ná niður verðbólgu:
Gildir sú krafa ekki um ykkar eigið fólk líka?
Eða eru það bara verkafólkið og neytendur sem eiga að sýna stillingu – meðan forréttindahópar ganga beint í kassann?“