- Advertisement -

Fengum bara galla nýfrjálshyggjunnnar

Við þurfum að vakna upp af þeirri martröð.

Gunnar Smári skrifar:

Stjórnmál eftirstríðsáranna snerust um að vinna gegn stéttaskiptingu og ójöfnuði kapítalismans, tryggja fólki afkomu, húsnæði, menntun og heilbrigðisþjónustu. Nýfrjálshyggjan hélt því fram að þessi markmið drægju afl úr samfélaginu, að óheftur kapítalismi myndi á endanum færa öllum betra líf þótt stéttaskipting myndi aukast og ójöfnuður þar með. Niðurstaðan varð sú að hagvöxtur nýfrjálshyggjuáranna er aðeins helmingur þess sem hann var á eftirstríðsárunum. Þið fenguð alla gallana sem nýfrjálshyggjan viðurkenndi að fylgdu kaupunum, en ekkert af kostunum.

…á erfitt með að láta enda ná saman…

Þetta er frétt um loforð nýfrjálshyggjunnar. Ungt fólk sem ekki kemur af betur settum heimilum á í erfiðleikum með að stunda nám, neitar sér um það af efnahagslegum ástæðum, þarf að vinna mikið með skóla, á erfitt með að láta enda ná saman, er kvíðið og líður illa. Þetta er fæðingarhríðir lénsveldis erfðastéttar auðfólks, sem er óhjákvæmileg niðurstaða óhefts kapítalisma.

Á eftirstríðsárunum var litið á menntun sem samfélagslegt verkefni. Víða um heim var ólæsi útrýmt þar sem það var vandi og milljónir eftir milljónum af börnum verkafólks og öreiga lyftust upp í millistétt með uppbyggingu almenns opins og gjaldfrjáls menntakerfis. Litið var svo á að aukin menntun íbúanna væri samfélagsleg gæði, rækt við þá auðlind sem fólk og samfélag eru.

Á nýfrjálshyggjuárunum var litið á menntun sem persónulega fjárfestingu, undirbúning undir grimmdarsamkeppni kapítalísk vinnumarkaðar. Menntun var notuð til að auka stéttamun, verkalýðnum var sagt að mennta sig ef hann sætti sig ekki við fátæktina sem fylgdi láglaunastörfunum. Markmiðið var ekki lengur að lyfta samfélaginu heldur að hver væri sjálfum sér næstur, hver reyndi að krafsa sig upp eftir bakinu á næsta manni. Aukin velmegun var persónulegt markmið, ekki samfélagslegt.

Kjarni nýfrjálshyggjunnar er þannig upphafin eitruð einstaklingshyggja og þess vegna brýtur hún niður samfélagið, ekki aðeins vegna ofurvalds auðs hinna fáu, sem sækja ekkert til samfélagsins og fyrirlíta það, heldur vegna þess að allar hugmyndir okkar um okkur sjálf er mótaðar af þessari eitruðu einstaklingshyggju.

Við þurfum að vakna upp af þeirri martröð.

Á eftirstríðsárunum var fólk sama mannskepnan og nú, hver einstaklingur jafn hjartahlýr og ástríkur og nú, jafn sjálfshyglin og eigingjarn. En þá var hið formlega samfélag á millum einstaklingana ekki byggt í kringum hina eitruðu einstaklingshyggju heldur var reynt að ýta undir styrk samfélagsins og félagslega hluta mannskepnunnar, þann sem er forsenda stórkostlegustu sigra mannskepnunnar; mannlegs samfélags, samstöðu, samvinnu og samkenndar.

Samfélag eftirstríðsáranna var auðvitað ekki fullkomið. En það reyndi að horfa í rétta átt. Nýfrjálshyggjan hafnaði samfélagslegum markmiðum eftirstríðsáranna og við höfum síðan horft í vitlausa átt. Það er kominn tími til að snúa höfðinu og sjá hin raunverulegu verðmæti í samfélaginu og finna hvar raunverulegt afl mannskepnunnar liggur.

Þetta merkir ekki að fólk eigi að hætta að rækta sjálfan sig og styrkja sem sem einstaklinga, heldur að einstaklingurinn verður öflugri og fær fleiri tækifæri ef samfélagið sem hann lifir innan er heilbrigt og sterkt. Það er hluti af sjálfsræktinni að rækta samfélagið sem fólk tilheyrir; fjölskyldu, nærumhverfi, þorp, sveit, stéttarfélag, almannasamtök, ríki, heimur. Það eru kannski stærstu svik nýfrjálshyggjuáranna að halda því fram að gott samfélag væri aðeins summa af eigingjörnum markmiðum einstaklingana og að við gætum ekki stefnt í sameiningu að betra samfélagi vegna þess að enginn hefði umboð til að skilgreina hvað samfélag væri; að við gætum aðeins þegið útkomuna en ekki haft áhrif á hana. Við þurfum að vakna upp af þeirri martröð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: