- Advertisement -

Fimm áratugir í grafískri hönnun

Menning Yfirlitssýning á verkum Gísla B. Björnssonar, grafísks hönnuðar, sem sett var upp í Hönnunarsafni Íslands 2012 opnar í Ketilhúsinu á Akureyri laugardaginn 24. maí kl. 15. Sýningin stendur til 10. ágúst 2014 og er opin alla daga nema mánudaga kl. 12-17 en frá og með 3. júní kl. 10-17.

Gísli B. er að sönnu einn atkvæðamesti grafíski hönnuðurinn í íslenskri hönnunarsögu á 20. öld. Sýningarstjóri er Ármann Agnarsson grafískur hönnuður og stundakennari við LHÍ.

Starfsferill
Gísli stofnaði auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar þegar hann kom úr námi frá Þýskalandi árið 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Gísli hefur kennt óslitið í fimm áratugi og verið óþreytandi í því að efla fagvitund og ábyrgð í grein sem í dag er orðin ein stærsta hönnunargreinin á Íslandi. Gísli var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1974-1976.

Á langri starfsævi hefur hann unnið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi ásamt því að hafa hannað sjálfur mörg þekkt merki fyrirtækja, félagasamtaka eða stofnana eða í samvinnu við samstarfsfólk sitt. Má þar nefna merki sjónvarpsins, merki norræna félagsins og merki Hjartaverndar og merki íslenskra bókaverslana. Gísli hefur hannað og sett upp fjölda bóka og gert bókakápur, hannað auglýsingar á prenti og auglýsingar í sjónvarpi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hönnun Gísla ber sterk einkenni módernisma en þeirri stefnu kynntist hann í Þýskalandi á námsárum sínum. Fyrstu verkefni Gísla eftir að hann lauk námi eru áhugaverð fyrir ýmsar sakir en þó ekki síst fyrir þá staðreynd að á þeim tíma er hann að leggja jafnóðum grunn að nýrri faggrein auglýsingateiknara eins og starfsstéttin hét þá. Verk og vinnuaðferðir Gísla hafa haft mikil áhrif á þróun grafískrar hönnunar hér landi og má meðal annars nefna Iceland Review tímaritið en sú útgáfa braut blað í tímaritaútgáfu hér á landi. Allir þeir grafísku hönnuðir sem hafa útskrifast á Íslandi hafa notið kennslu og leiðsagnar Gísla, en hann ákvað að láta af kennslu fyrr á þessu ári.

Um sýninguna
Á sýningunni er farið yfir feril Gísla, verk frá námsárum hans sýnd, tímarit, bókakápur og umbrot og hönnun bóka. Sýnd eru gömul myndbrot af auglýsingastofu Gísla þar sem tækni þess tíma gefur innsýn í vinnu teiknarans og hugmyndasmiðsins. Fjöldinn allur af smáritum og bæklingum sýna ólíkan tíðaranda á fimm áratugum ásamt öðru efni sem varpar ljósi á fjölbreytileika þess fags sem Gísli hefur, öðrum fremur unnið sleitulaust að því að byggja upp og hlúa að. Vandvirkni og sjálfsgagnrýni hafa ávallt verið leiðandi stef í allri vinnu Gísla, þetta eru grunngildi sem þarf til að skapa góða og ábyrga hönnun.

Vakin er athygli á útgáfu sýningarskrá í tilefni sýningarinnar. Í henni eru fjölmörg verk Gísla ásamt viðtölum og greinum eftir Guðmund Odd Magnússon, Gísla B. Björnsson og Harald J. Hamar og fleiri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: