- Advertisement -

Flókin saga sögð á einfaldan máta

Gunnar Smári Egilsson skrifar:

Gunnar Smári.

Fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á endurmati á aðferðum, sjónarhorni og áherslum hagfræðinnar eftir Hrun, og hafið gefist upp á að bíða eftir því að hagfræðisdeild Háskóla Íslands standi fyrir slíku (þar hafa of margir prófessorar lagt of mikið undir þá meginstraumshagfræði sem hrundi 2008) þá er ekki hægt að benda á betri og þægilegri leið en þessa: ellefu fyrirlestrar (og aðgreindar umræður) um sögu hagfræðinnar, tengsl hennar við vísindi, sálfræði, félagsfræði, siðfræði, stjórnmál og vald, hvers vegna hún brást svo eftirminnilega og hvernig mögulegt væri að endurreisa hana sem nothæfan verkfæri til skilnings á samfélagi manna. Þetta er á engan hátt últra róttækt úttekt heldur einskonar uppgjör innan meginstraumsins, lögð fram með heilbrigða skynsemi að vopni, góðri söguþekkingu og klassískum húmanisma. Þarna er til dæmis bent á erindi Karl Marx við okkar tíma sem sjálfsagðan hlut, að ekki sé hægt að skilja veikleika hagfræðinnar áratugina fyrir Hrun og átök innan samfélagsins í dag nema þekkja til greininga Marx.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta eru ellefu fyrirlestrar, hver um sig um það bil 25 mínútur.

Fyrirlesarinn er einkar góður kennari, Robert Skidelsky, sem skrifað hefur ævisögur fasistaforingjans Oswald Mosley og hagfræðingsins John Maynard Keynes; gekk ungur í Verkamannaflokknum en síðan út úr honum með frjálslyndum miðjumönnum og myndaði SPP (Sósíaldemókrataflokkurinn), sem síðar gekk inn Frjálslyndra demókrata. Skidelsky gekk lengra, alla leið inn í Íhaldsflokkinn en síðan út úr honum aftur eftir Hrun og studdi formannsframboð Jeremy Corbyn og kröfu hans um endurnýjun Verkamannaflokksins frá vinstri. Skidelsky er því maður sinnar tíðar, hefur sveiflast með pólitískum tíðaranda í leit að þeim hugmyndum sem helst geta mætt vanda hvers tíma. Þetta gerir honum auðvelt að leggja fram gagnrýni sína og sögu með margvíslegu sjónarhorni og breiðum botni. Þar fyrir utan er hann þægilegur sögumaður, á auðvelt með að segja flókna sögu á einfaldan máta og gerir það af ró þess sem veit svo margt að hann þarf ekki að sanna sig; hann skyggir ekki á söguna.

Þetta eru ellefu fyrirlestrar, hver um sig um það bil 25 mínútur, fjórir og hálfur tími. Auk þess er þarna umræður milli nemenda og kennara, sem eru enn lengri. Það er hægt að mæla með þeim fyrir þau ykkar sem hafið endalausa forvitni fyrir klemmu hagfræðinnar.


Booking.com

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: