- Advertisement -

Fréttablaðið forðast Sósíalistaflokkinn

Annars er fátt markvert í
könnuninni.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Fréttablaðið þráast enn við að spyrja sérstaklega um Sósíalistaflokkinn og/eða birta stöðu hans þótt bæði MMR og Gallup hafi gert það allt þetta ár, enda erfitt að lesa í stöðuna án þess að fá upplýsingar um stöðu sósíalista. Það sést á þessari könnun, þar kemur fram að Viðreisn hefur dregið til sín mest fylgi frá kosningum, 4,7 prósentustig, en þar næst kemur Annað, með 3,7 aukningu um prósentustig frá kosningum. Hjá MMR eru Sósíalistar 2/3 af samanlögðum Sósíalistaflokki og Annað og hjá Gallup um 97,5%. Við vitum ekki hversu mikið af fylgi sem kallað er Annað hjá Fréttablaðinu er Sósíalistaflokkurinn, en það er kominn tími fyrir blaðið að taka hann með í kannanir sínar og geta hans í frásögnum af þeim. Sem er reyndar gert í aukasetningu í dag, en það kemur fram að Sósíalistaflokkurinn er stærri en Framsókn í Reykjavík. Það virkar ankannalega að mæla sósíalista ekki sérstaklega þegar flokkurinn Annað er kominn yfir 5% þröskuldinn, farinn að mælast með þrjá þingmenn.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Ríkisstjórnarflokkarnir, sem fengu 52,9% atkvæða í kosningum, mælast nú með 40,2% fylgi.

Annars er fátt markvert í þessari könnun annað en að hún staðfestir sókn Viðreisnar í sumar og nokkurt tap Píratar síðla sumars. Hvort tveggja hefur sést í öðrum könnunum. Fréttablaðið sýnir hins vegar snöggt tap Framsóknar, en það á eftir að koma í ljós í könnunum annarra könnunarfyrirtækja hvort það sér raunverulegt fall.

Ríkisstjórnarflokkarnir, sem fengu 52,9% atkvæða í kosningum, mælast nú með 40,2% fylgi. Fjórðungur af fylgi þeirra hafa hrökklast burt. Hlutfallslega hefur Framsókn tapað mestu, þá VG og loks Sjálfstæðisflokkurinn.

Píratar falla úr 15,2% í júní niður í 12,3% nú. Reiðilesturinn yfir Birgittu Jónsdóttur ætlar að verða flokknum dýrkeyptur. Píratar voru næst stærsti flokkurinn á eftir Sjálfstæðisflokknum í júní en nú mælast Samfylking, Miðflokkur og VG stærri, ekki mikið en samt. Og Viðreisn andar ofan í hálsmálið á þeim. Það hefur verið nokkur hreyfing á fylgi milli Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar á kjörtímabilinu; um tíma var Samfylkingin áberandi stærst, síðan virtist sem Píratar ætluðu að verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn en eftir að þessir tveir hafa dalað aftur og Viðreisn vaxið eru þessir þrír ósköp svipaðir í síðustu könnunum.

Þar sem bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn eru rétt undir 5% þröskuldinum er varasamt að leggja of mikið upp úr þingmannaskiptum.

Miðað við niðurstöður þessarar könnunar er ríkisstjórnin kolfallin, hefur aðeins fylgi fyrir 28 þingmönnum. Kannski er líklegasta ríkisstjórnin í þessari könnun viðreisn með litlum staf; Sjálfstæðisflokkur (eftir frjálslynt vink með skipun dómsmálaráðherra), Samfylking og Viðreisn með 33 þingmenn. Þetta ríkisstjórnarmynstur hefur ekki áður á kjörtímabilinu haft meirihluta í könnunum. Reykjavíkurmeirihlutinn, SCPV, er með 35 þingmenn og hægri stjórn DCM er með 32 þingmenn.

En þar sem bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn eru rétt undir 5% þröskuldinum er varasamt að leggja of mikið upp úr þingmannaskiptum. Ef þessir tveir flokkar ná sitthvorum þremur þingmönnunum fellur meirihluti DSC úr 33 þingmönnum niður í 29 þingmanna minnihluta.





Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: