- Advertisement -

Fyrirvari Framsóknar og þögn Vg

„Framsókn og Sjallar eru nú að henda út hálendisþjóðgarðinum, sem var sagt eitt af helstu erindum VG í ríkisstjórn fyrir fjórum árum tæpum. Þetta kemur reyndar ekki á óvart. Því miður hafa forsætis- og umhverfisráðherra haldið klaufalega á málinu sem náttúruverndarsamtök hófu til vegs á sínum tíma og naut lengi meirihlutastuðnings þjóðarinnar,“ skrifar Mörður Árnason í Fréttablaðið.

„ Merkilegt samt hvernig Sigurður Ingi Jóhannsson orðar afstöðu flokks síns til málsins þegar mynduð var ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Í Vísi á mánudaginn segir hann „Framsóknarflokkinn hafa sett fyrirvara við málið inn í stjórnarsáttmálann …“. Og nú sé orðið „útilokað“ að klára þjóðgarðinn fyrir kosningar. Fyrirvarar eru algengir í stjórnmálastörfum hérlendis, að minnsta kosti á þingi. Þingmenn í stjórnarþingflokki gera fyrirvara við frumvörp, sem eru þá kynntir ráðherranum, og í þingnefndum er hægt að samþykkja mál með fyrirvara, sem þá er ætlast til að sé kynntur við umræðu máls og afgreiðslu.

Hef samt aldrei heyrt um fyrirvara við stjórnarsáttmála. Og í þeim frá nóvember 2017 er enginn fyrirvari finnanlegur. Um þjóðgarðinn stendur þetta, svart á hvítu:

„Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði …“ við hina og þessa.

Stjórnarsáttmálum er ætlað að sýna hvers má vænta af stjórninni – og það er á grundvelli þeirra sem fólkið í flokkunum samþykkir nýja ríkisstjórn – í flokksráði hjá Sjálfstæðisflokki og VG, miðstjórn í Framsóknarflokknum.

Umræddur fyrirvari Framsóknar var ekki kynntur almenningi haustið 2017. Félagar og stuðningsmenn stjórnarflokkanna virðast ekkert hafa vitað af honum. Kannski hafa ýmsir forystumenn í flokkunum – og jafnvel þingmenn þeirra – ekki heldur vitað neitt?

Maður spyr svo í framhaldinu, af því þjóðgarðurinn var eitt af því sem VG taldi sér til tekna í þessari stjórn: Sagði formaður VG sínu fólki ekkert frá fyrirvara Framsóknar í nóvember 2017? Var stuðningur við stjórnina í þingflokki og flokksráði VG þá að þessu leyti ekki á sannferðugum forsendum? Eða var enginn fyrirvari?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: