- Advertisement -

Gefur nýr forstjóri færi á gagnrýnni umræðu um forsendur „ráðgjafarinnar“?

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Það virðist ekkert breytast hjá Hafró, haldið er áfram með sömu aðferðir þrátt fyrir að reynslan af þeim sé hræðileg. Hugmyndafræðin gengur  út á að friða hraðvaxta, ókynþroska smáfisk með því að geyma hann í hafinu þar til hann væri búinn að taka út vöxt ásamt því draga tímabundið úr sókn.

Það hefur verið farið nákvæmlega eftir veiðiráðgjöf Hafró síðustu áratugina, en ekkert bólar á því að þorskaflinn verði svipaður og áður en núverandi stjórnun var tekin upp. Stefnan beið í raun algert skipbrot um síðustu aldamót eftir að búið var að fylgja „ráðlegginum“ stofnunarinnar nánast upp á tonn um árabil. Það tilraunastarf hafði alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarbyggðirnar, einkum á Vestfjörðum.  Í stað þess að þjóðin væri að innleysa ávinning vegna niðurskurðar fyrri ára um aldamótin síðustu, þá var boðaður niðurskurður á aflaheimildum á kunnuglegum forsendum þ.e. að þorskstofninn hefði í raun verið ofmetinn árin á undan og veiðin hafi verið hlutfallslega meiri en kenningin gengi út á. 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú er tækifæri fyrir nýjan forstjóra Hafró að staldra við.

Mikil gagnrýni var á þessar skýringar stofnunarinnar og var sett á laggirnar sérstök ráðstefna um málið – Gott ef Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stýrði þá ekki umræðum um málið á ráðstefnunni. Í framhaldi af þinginu var samin gagnmerk samantekt um líffræðilegar forsendur gagnrýni á aðferðarfræði Hafró. 

Niðurstaðan var engu að síður illu heilli að ekkert var gert með gagnrýnina og miklu frekar hert á vitleysu og líffræðileg gagnrýni úthýst og beitt útilokun. Komið var í veg fyrir að færir vísindamenn á borð við Jón Kristjánsson gætu stundað rannsóknir og var látið liggja að því að velígrunduð vísindaleg gagnrýni væri eitthvert kverúlantataut.

Það sem Jón benti á var að með því að draga úr veiðum þá leiddi það annars vegar til minni nýliðunar og hins vegar myndi það leiða til minnkaðs vaxtarhraða einstaklinga í fiskistofnum, vegna aukinnar samkeppni.

Ástandsskýrslur Hafró sýna svart á hvítu að hann hefur haft ýmislegt til síns máls.

„Endurbætt“ stofnmat skilaði ekki tilætluðum árangri upp úr miðjum tíunda ártugnum og var þá ráðist í að draga enn frekar úr veiðum með því að lækka aflareglu enn frekar. Reyndar er rétt að geta þess að einn helsti hugmyndafræðingur reiknisfiskifræðinnar lagði til árið 2007 þegar verið var að endurskoða regluna að réttast væri að hætta algerlega þorskveiðum í 2 ár, til þess að fá enn meiri ávinning fyrr.  Það lagði viðkomandi til í, í ljósi þess hve þjóðarbúið stæði traustum fótum kortér fyrir hrun.

Nú er tækifæri fyrir nýjan forstjóra Hafró að staldra við og fara málefnalega yfir vísindalega gagnrýni á aðferðarfræði Hafró með jákvæðum hætti, en það gæti orðið til heilla fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: