- Advertisement -

Gróflega sé brotið á Seyðfirðingum

Jódís Skúladóttir:

„Hvernig getur það átt sér stað að svona gróflega sé brotið á íbúum og orð þeirra heyrist ekki? Það verður að stíga inn og standa með fólkinu sem hefur liðið nóg eftir skriðuföllin á Seyðisfirði.“

„Ég er hingað komin til að tala um laxeldi sem er orðið ótrúlega rótgróið í okkar samfélagi og mikilvæg stoð atvinnulífsins. Ég er ekki komin hingað til að tala um áhrifin á náttúruna, ég er ekki hingað komin til að tala um erlent eignarhald,“ sagði Jódís Skúladóttir Vg.

„Það er margt sem við þurfum að skoða en það sem brennur á mér núna er lýðræði. Við tölum mikið um lýðræði. Við tölum um lýðræðisríki, lýðræðisleg vinnubrögð, lýðræðislegt samfélag,“ sagði Jódís.

„Laxeldið er komið til að vera og í minni heimasveit eða bara á Austurlandi er mikið og öflugt laxeldi þar sem ég hef sjálf, sem fyrrverandi formaður heimastjórnar á Djúpavogi, gert mitt til að greiða götu uppbyggingar þessarar atvinnugreinar. En það sem á eiga sér stað nú á Seyðisfirði, þar sem íbúalýðræði er fótum troðið í boði meiri hluta sveitarfélagsins, einkafélaga og erlendra fjárfesta, er svo stórkostlega galið að ég verð að vekja á því athygli hér, bæði fyrir þing og þjóð. Það fer gegn allri þeirri stefnu og vinnu sem í áratugi hefur verið á Seyðisfirði í uppbyggingu menntunar, menningar og ferðaþjónustu,“ sagði Jódís og að endingu: „Rúmlega helmingur íbúanna, hefur sagt sig vera algerlega andsnúinn þessari uppbyggingu. Hvernig getur það átt sér stað að svona gróflega sé brotið á íbúum og orð þeirra heyrist ekki? Það verður að stíga inn og standa með fólkinu sem hefur liðið nóg eftir skriðuföllin á Seyðisfirði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: