- Advertisement -

Handaflsaðgerð ráðherra

Byggðamál „Svona handaflsaðgerð held ég að muni bitna á stofnuninni,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi alþingismaður og óformlegur sendiherra Akureyrar í Reykjavík, um áform Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra um að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Þessi orð og fleiri féllu í viðtali i þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Sigmundur Ernir segist alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að það sé óheppilegt að flytja heilar og rótgrónar stofnanir milli landshluta. „Þó ég sé eindreginn talsmaður þess að efla opinbera þjónustu hringinn í kringum landið. Ég er byggðajafnaðarmaður í öllu tilliti og vil sjá fleiri opinber störf út á landi, en þau hafa verið að flytjast umvörpum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Það er lítið talað um það. En meira ef störf hins opinbera fara út á land. Við verðum að hafa hugfast í þessu efni hvað er stofnun, hún er fyrst og fremst fólk og fagþekking. Ég óttast að hvorutveggja tapist að einhverju leyti við flutninginn og tel undir öllum kringumstæðum betra að koma opinberum störfum út á land með þeim hætti að fjölga þeim í þeim stofnunum sem fyrir eru og þegar nýjar stofnanir verða til að þeim verði komið fyrir út á landi.“

Sigmundur Ernir var spurður hvort hann sæi þörf fyrir Fiskistofu á Akureyri. „Í sjálfum sér er henni vel fyrirkomið á Akureyri einfaldlega vegna þess að áttatíu prósent af fiskútgerð og fiskiðnaði er rekin út á landi, sautján prósent í Reykjavík. Þó ekki væri af annarri ástæðu verður þessari stofnun vel fyrirkomuð í einum mesta sjávarútvegsbæ landsins, sem Akureyri er.“ Sigmundur nefndi einnig væntanlegt nábýli við Háskólann á Akureyri. Hann segist reikna með að stofnunin muni standa sig vel á Akureyri.

„Hugur minn er hjá starfsfólkinu. Það er ekkert sjálfgefið að rífa sig upp og flytja landshluta á milli vegna ákvörðunar sem einhver annar tekur. Svona ákvörðun tekur maður sjálfur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sigmundur nefndi aðra möguleika sem ráðherra hefði getað valið, sértaklega að auka hægt og bítandi starf Fiskistofu á Akureyri og draga saman í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: