- Advertisement -

Heilbrigðisstarfsfólkið okkar er uppgefið, það getur ekki hlaupið hraðar

Jódís Skúladóttir fyrrverandi þingkona skrifaði:

Facebook „Af heilbrigðiskerfinu. Ég beið síðan í júní eftir tíma hjá sérfræðilækni. Ég er óvinnufær, á misjafna daga en oftast er ég með undir 50% af mínu þreki. Ég er með mörg og flókin einkenni sem sum hafa fylgt mér árum saman en önnur og alvarlegri dúkkuðu upp í vor. Í tíma hjá sérfræðingi á fimmtudaginn bókaði læknirinn mig í rannsókn á Borgarspítalanum á föstudaginn. Stuttu eftir tímann var hringt frà spítalanum og mér tjáð að þar sem læknir verður að vera viðstaddur rannsóknina sé bara hægt að gera þetta á mánudögum og mér var boðin tími kl 9 í dag.

Ég var mætt snemma, skráði mig inn og var sagt að fara í röðina en um 20 manns biðu þar eftir að komast í blóðprufu. Þegar röðin kom að mér leit út fyrir að ég væri að fara í hefðbundna blóðprufu svo ég spurði hvort meiningin væri ekki að læknir væri viðstaddur.

Hjúkrunarfræðingurinn fór þá að skoða miðana mína og bað mig að bíða.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Einn læknir væri í leyfi, einn hefði sagt upp…

Eftir stundarkorn var mér vísað inn í hliðarherbergi, ég sett í hægindastól og fyrsta blóðprufa af mörgum var tekin.

En upphófst þá mikil rekistefna um hvað ætti að gera við mig.

Kona, sem virtist bæði þreytt og miður sín, tjáði mér að gleymst hefði að gera lækni viðvart um tímabókunina. Einn læknir væri í leyfi, einn hefði sagt upp og sú sem stæði ein eftir væri stödd á Hringbraut og gæti alls ekki komið. Ég bauðst til að fara niður á Hringbraut ef það gæti leyst málið en var tjáð að þar væri ekki aðstaða fyrir svona rannsókn.

Niðurstaðan var á endanum að senda mig heim og einhver mun hafa samband í vikunni og láta mig vita hvenær og hvert ég á að mæta.

Heilbrigðisstarfsfólkið okkar er uppgefið, það getur ekki hlaupið hraðar. Húsbúnaður og tæki eru úr sér gengin.

Ég er bara ein af þúsundum sem þarfnast þjónustu og aðstoðar. Við öll sem búum á biðlistum erum manneskjur sem erum uggandi yfir heilsunni, við erum með verki, við sofum lítið, við erum hrædd og kvíðin.

Einkarekstur heilbrigðiskerfisins byggir á arðsemiskröfu en ekki þjónustuþörf. Ranghugmyndin um ofurlækna á einkastofum sem koma inn og eyða biðlistum er þvæla. Það er mannanna verk að svelta hið opinbera kerfi ár eftir ár til þess að búa til glansmynd einkareksturs sem einhverrar lausnar. Kerfið verður tvöfalt, það er misnotað og kostnaðurinn fellur á endanum bæði á sjúklinga og ríkið.

Það er ekki starfsfólki spítalanna að kenna.

Ég hef langa reynslu af heilbrigðiskerfinu, var bæði sjálf mikið á sjúkrahúsi sem barn, á langveikan son, hef fylgt mínum nánustu síðasta spölinn gegnum krabbameinsmeðferð ofl ofl. Á þeim rúmu 40 árum sem ég hef verið notandi eða aðstandandi í heilbrigðiskerfinu hefur þjónustu og mennsku hrakað.

Það er ekki fólki á flótta að kenna. Það er ekki starfsfólki spítalanna að kenna. Það er meðvitaðri ákvörðun stjórnvalda hverju sinni að kenna.

Ekki virðist það vera hægri eða vinstri pólitík sem ræður, því à þessum áratugum höfum við haft alls konar ríkisstjórnir.

Óháð flokkum, óhàð hagvexti, óhàð mannúð virðist það vera samþykkt að hinu opinbera heilbrigðiskerfi megi einfaldlega blæða út. Það er bara engin að græða á því að ríkið veiti sjúkum þjónustu.

Þurfum við ekki eitthvað að skoða þetta?“

Forgangsmál að efla opinbera kerfið

Oddný Harðardóttir, fyrrum þingkona og ráðherra, tekur undir með Jódísi og skrifar:

Facebook „Ég tek undir með Jódísi varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Það ætti að vera forgangsmál nú um stundir að efla opinbera kerfið og gæta þess að samningar við einkastofur séu með þeim hætti að þegar þeir renna út geti læknar þar ekki farið ofan í vasa sjúklinga til að fá samningsleysið bætt upp.

Harðast bitnaði þetta ástand á öryrkjum…

Hér á samkvæmt lögum að vera heilbrigðisþjónusta óháð efnahag. Við megum alls ekki fara í sama farið og var t.d. fyrir síðasta samning við sérgreinalækna. Þá var samningsleysi í fjögur og hálft ár og sjúklingar, sem höfðu efni á því, borguðu fyrir aðgerðir og læknisaðstoð hjá flestum sérgreinalæknum á einkastofum. Ekki rukkuðu allir læknarnir samt sjúklinga sérstaklega en flestar stofurnar voru með sérstök aukakomugjöld á þessu tímabili sem hækkuðu þegar leið á tímann fram að því að samningar náðust.

Harðast bitnaði þetta ástand á öryrkjum sem flestir eru langveikir og margir þeirra einnig fátækir.

Jódís segir: ,,Einkarekstur heilbrigðiskerfisins byggir á arðsemiskröfu en ekki þjónustuþörf. Ranghugmyndin um ofurlækna á einkastofum sem koma inn og eyða biðlistum er þvæla. Það er mannanna verk að svelta hið opinbera kerfi ár eftir ár til þess að búa til glansmynd einkareksturs sem einhverrar lausnar. Kerfið verður tvöfalt, það er misnotað og kostnaðurinn fellur á endanum bæði à sjúklinga og ríkið.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: