- Advertisement -

Hjásetufólk á Alþingi Íslendinga

Þingmenn samþykktu seint í gærkvöld leiðréttingu á nýlegum lögum um almannatryggingar. Nokkur umræða varð um málið fyrir viku, sjá hér.

Þrátt fyrir andstöðu margra þingmanna fór svo að stjórnarmeirihlutinn sagði já, það er allir 32 þingmenn stjórnarflokkanna. Tveir voru á móti, Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson Píratar. Nítján þingmenn sátu hjá og níu voru fjarverandi.

Jón Þór gerði einn þingmanna grein fyrir atkvæði sínu. Hér er unnt að heyra það sem hann sagði.

Svo vill til að í Staksteinum Morgunblaðsins er Jón Þór til umfjöllunnar. „Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, berst þessa dagana ákaft fyrir því að laun þingmanna lækki,“ segir þar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, berst þessa dagana ákaft fyrir því að laun þingmanna lækki. Hann er afar ósáttur við ákvörðun Kjararáðs um að fylgja lögum við ákvörðun þingfararkaupsins og telur að þingmenn eigi að taka fram fyrir hendur ráðsins og lækka laun sín“ segir í upphafi skrifanna.

„Nú er það svo að þingmenn leggja mismikið af mörkum og ef til vill væri réttast að þeir ákvörðuðu laun sín í samræmi við það. Þannig mætti til dæmis hugsa sér að þingmenn sem sinntu starfi sínu til fulls og tækju almennt afstöðu til mála fengju full laun. Þingmenn sem mættu stopult og sætu þar að auki iðulega hjá við atkvæðagreiðslur fengju skert laun. Þeir þingmenn sem væru fjarverandi í meira en tíundu hverri atkvæðagreiðslu eða sætu hjá í 76% þeirra atkvæðagreiðslna þar sem þeir þó mættu, eins og til dæmis Jón Þór þegar hann sat á þingi síðast, fengju um eða innan við fjórðung þingfararkaupsins. Þetta gæti verið sanngjörn regla og til þess fallin að draga úr hyskni kjörinna fulltrúa almennings. Svo mætti jafnvel taka tillit til þess líka við ákvörðun þingfararkaups einstakra þingmanna ef þeir byggju að einhverju leyti við niðurgreiddan kostnað, væru til dæmis í niðurgreiddu húsnæði. Svona mætti lengi halda áfram, en líklega er þó best að þingmenn eigi til hnífs og skeiðar og geti verið þokkalega fjárhagslega sjálfstæðir.“

Áður en þingheimur ákvað afturvirkni laga til að bjarga eigin mistökum var atkvæðagreiðsla um hæfni dómara og aðsetur Landsréttar.

Skemmst er frá að segja að 34 þingmenn sögðu já, tuttugu þingmenn sátu hjá og níu voru fjarverandi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: