- Advertisement -

„HÖFUM VIÐ EFNI Á ÞESSU ÖLLU?“

Þorsteinn Pálsson skrifar:

Í síðasta mánuði birti Óli Björn Kárason alþingismaður grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Höfum við efni á þessu öllu? Þar er gagnrýnt að útgjöld opinbera kerfisins hafi aukist um 87 prósent á föstu verðlagi frá aldamótum. 

Þetta er ósanngjörn ádeila á þann flokk, sem ber mesta ábyrgð á þessari þróun, af því að viðmiðið er villandi. Þegar horft er á þjóðarkökuna sést að stærð opinberu sneiðarinnar er óbreytt. Hún var 41.4 prósent um aldamótin og er nú 41,9 prósent. Þetta er sem sagt ekki vandinn.

HUGMYNDAFRÆÐIN UM FRJÁLSAN MARKAÐ OG VELFERÐ

Þú gætir haft áhuga á þessum
Óli Björn Kárason fær hér kröftugar athugasemdir frá Þorseini Pálssyni.

En á þessum tíma hafa aðrar skaðlegar kerfisbreytingar átt sér stað í þjóðarbúskapnum.

Velferðarkerfið er reist á þremur stoðum: Ríkinu, sjálfstæðum sveitarfélögum og lögbundnum lífeyrissjóðum.

Norræna velferðarkerfið byggir á þeirri einföldu hugmyndafræði að lögmál markaðarins ráði þróun atvinnulífsins og sköpun verðmæta til þess að hún geti aftur staðið undir öflugasta velferðarkerfi í heimi.

Alvarlegir brestir eru hins vegar komnir í þessa miðjuhugmyndafræði hér á landi.

SÖFNUNARKERFI LÍFEYRISRÉTTINDA Í BRÁÐUM HÁSKA

Félagslegt fjármagn í lífeyrissjóðum velferðarkerfisins er tvöfalt meira en öll árleg framleiðsla þjóðarbúsins og vex hröðum skrefum. Það er styrkleiki.

Til þess að tryggja eðlilega áhættudreifingu og hindra bráða hættu á sjálfvirkum samruna lífeyrissjóða og ríkissjóðs í gegnumstreymiskerfi þarf að mati hagfræðinga að fjárfesta meiri hluta lífeyrissparnaðarins erlendis.

Það er aftur á móti ekki hægt af því að þá hrynur gjaldmiðillinn. Það er háskalegur veikleiki.

Sparnaði velferðarkerfisins er troðið inn í búskap, sem það er löngu vaxið upp úr. Framtíðar hagsmunir lífeyrisþega eru því í uppnámi.

Stjórnir  lífeyrissjóða taka ákvarðanir út frá lögbundnum miðstýrðum forsendunum.

HLUTDEILD AUÐNUAFLSINS FER ÞVERRANDI

Stjórnir  lífeyrissjóða taka ákvarðanir út frá lögbundnum miðstýrðum forsendunum. Það er óhjákvæmilegt.

Einkaframtakið fjárfestir á hinn bóginn út frá fjölbreyttum forsendum og  mismunandi sýn. Í því felst drifkraftur og  nýsköpun markaðarins.  Hlutdeild þessa auðnuafls í búskap þjóðarinnar fer þverrandi.

Ofvöxtur velferðarkerfisins á íslenskum hlutabréfamarkaði leiðir svo til skekkju í verðmyndun hlutabréfa. Eignabólur eru afleiðing þess.

Það sýnir svo glöggt kerfislega bresti að sjávarútvegurinn, sem er eina atvinnugreinin með viðunandi framleiðni, tekur ekki þátt í hlutabréfamarkaðnum, undirstöðunni í heilbrigðum markaðsbúskap.

FRUMLÖGMÁL KAPÍTALISMANS ROFNAR

Frumlögmál kapitalismans felst í því að menn hætta eigin fé en ekki annarra.

Sameiginleg ábyrgð samtaka launafólks og atvinnulífs á félagslegu fjármagni lífeyrissjóðanna hefur reynst afar vel. En hún virkar síður inni í stjórnum einstakra fyrirtækja, sem þeir eiga.

Lífeyrissjóðir geta illa tekið yfir stjórn fyrirtækja þó að þeir eigi ráðandi hlut eða meirihluta. Því ráða meðal annars samkeppnisaðstæður.

Þó að stjórnir fyrirtækjanna séu skipaðar hæfu fólki og vönduðu breytir það ekki þeirri staðreynd að lögmál kapítalismans um að hætta eigin fé en ekki annarra rofnar þegar þannig stendur á. Það er óheilbrigt, þótt dæmi séu um að það hafi gengið vel upp.

VEIKLEIKI SEÐLABANKANS

Án alvöru mælikvarða þrífst markaðsbúskapur illa.

Samkvæmt lögum eru tvenns konar krónur í umferð: Verðrýrð króna og verðtryggð króna.

Peningastefna Seðlabankans miðast við verðrýrðar krónur. Öll stærstu fyrirtæki landsins hafna bæði verðrýrðum og verðtryggðum krónum og mæla arðsemi í dölum og evrum. Stærsti fjármagnseigandinn, sem er velferðarkerfi lífeyrissparnaðar landsmanna, hugsar svo í verðtryggðum krónum.

Þegar stærsti fjármagnseigandinn hugsar í öðru myntafbrigði en Seðlabankinn eru áhrifin þau að gríðarleg lækkun stýrivaxta skilar sér ekki í stórauknu lánsfjárframboði til atvinnulífsins eins og hagfræðilögmál í venjulegu myntkerfi hefðu ella leitt til að undanförnu.

Innilokun lífeyrissparnaðarins í of litlu peningakerfi leiðir svo til þess að verðmyndun gjaldmiðilsins skekkist. Hann er því ekki haldgóður mælikvarði á arðsemi hlutanna. Án alvöru mælikvarða þrífst markaðsbúskapur illa.

ÞVERBRESTIR Í MARKAÐSKERFINU

Við höfum ekki gjaldmiðil, sem mælir arðsemi.

Við getum ekki dreift áhættu lífeyrissjóðanna nægjanlega.

Við knýjum lífeyrissjóðina til að búa til eignabólur.

Einkafjármagnið er í minnihluta á hlutabréfamarkaðnum.

Við rjúfum tengsl áhrifa og áhættu í drjúgum hluta fyrirtækja. 

Við notum svo marga gjaldmiðla og myntafbrigði að vaxtaákvarðanir virka ekki sem skyldi.

 „Höfum við efni á þessu öllu?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: