- Advertisement -

Hrekur fullyrðingar Katrínar

Þetta er bara bílasöluræða hjá ráðherranum.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Í Kastljósi var rætt við forsætisráðherra um skattatillögur ríkisstjórnarinnar. Hún sagði m.a.:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég horfi bara á hvað það er sem við erum að gera, mitt mat er það að þessar breytingar eru góðar, þær eru réttlátar, þær stuðla að auknum jöfnuði. Við erum að gera kerfið réttlátara, við erum að gera breytingar í jafnréttisátt. Þær koma betur fyrir tekjulága en tekjuháa, betur fyrir konur en karla sem eru auðvitað almennt tekjulægri. Við erum að reyna að koma til móts viðtekjulægstu hópana. Það er eðli prógressívra skattkerfa að það sem er gert fyrir neðsta hópinn það skilar sér upp skalann. Hlutfallslega er lækkunin mest fyrir þá sem eru í neðsta þrepi og svo fjarar hún út eftir því sem ofar kemur þegar við horfum á það hlutfallslega.“

Tökum þetta lið fyrir lið:


1. „Þær eru réttlátar“: Hvaða réttlæti felst í því að þegar bæta þarf kjör hinna verst settu, þá fá allir með laun yfir 325.000 kr. meiri skattalækkun, en þeir sem eru með laun undir 325.000 kr.? Hvaða réttlæti felst í því, að einstaklingur sem býr einn og er með 4,5 m.kr. á mánuði (ef sá einstaklingur er til) fær skattana sína lækkaða um 12.500 kr., en öryrkinn með 235.000 kr. á mánuði fær þá lækkaða um 9.400 kr. svo dæmi sé tekið?


2. „Þær stuðla að auknum jöfnuði“: Hvaða jöfnuður fæst með því, að allir yfir 325.000 kr. á mánuði fá skattalækkun upp á 12.500 kr., en ekki þeir sem eru með undir þeirri tölu í laun?


3. „Breytingar í jafnréttisátt“: Mér skilst að þetta byggist á því að tekið verði fyrir að hægt sé að færa persónufrádrátt á milli samskattaðra aðila. Hvernig verður það að jafnréttismáli, að dregið er úr framlagi þess heimavinnandi (eða með tekjur undir skattleysismörkum) til tekjuöflunar heimilisins? Það er ekki bara að viðkomandi einstaklingur er með drullulágar tekjur, heldur ætlar ríkið að taka af viðkomandi möguleikann á að leggja heimilinu til meiri tekjur. Þetta hefur ekkert með jafnrétti að gera, heldur er verið að benda viðkomandi frekar á hversu lítils virði viðkomandi er.


4. „Koma betur fyrir tekjulága en tekjuháa“: Nei, þær koma ekki betur út fyrir tekjulága en tekjuháa. Þær koma í besta fall jafnt út fyrir báða hópa og í versta falli mun verr út fyrir tekjulága.


5. „Betur fyrir konur en karla“: Þetta er bara bílasöluræða hjá ráðherranum. Meira að segja búið að draga niður í kílómetramælinum. Hvernig getur það komið betur út fyrir konur að fá innan við 12.500 kr. í skattaafslátt vegna þess að þær eru með svo lágar tekjur eða geta ekki lengur látið makann nýta ónýttan persónuafslátt? (Sjá nánar lið 3.)


6. „Koma til móts viðtekjulægstu hópana“: Hvernig er verið að koma til móts við tekjulægstuhópana, þegar allir yfir 325.000 kr. fá meiri lækkun skatta, en þeir tekjulægstu sem eru jú allir með undir 325.000 kr.? Hún staðfestir þetta í næstu setningu.


7. „Það er eðli prógressívra skattkerfa að það sem er gert fyrir neðsta hópinn það skilar sér upp skalann“: Veit að vísu ekki hvað þetta orð „prógressívra“ á að merkja og hún hefði notað íslenskt orð, ef hún hefði skilið það sjálf. Sem sagt með þessari einu setningu, þá opinberar forsætisráðherra að allt hitt á undan var bara bílasölumaður að selja bíl hvers kílómetramælir hafði verið færður niður um 190.000 km. 


8. „Hlutfallslega er lækkunin mest fyrir þá sem eru í neðsta þrepi“: Ég skora á ráðherrann að prófa að borga með prósentum næst þegar hún verslar í matinn. Ég prófaði það einu sinni í gríni og starfsmaðurinn á kassanum hló bara. Fattaði brandarann. Hvort sem viðkomandi þénar 325.000 kr. eða 4,5 milljónir kr., þá fást jafn margir mjólkurlítrar fyrir 12.500 kr. eða bíómiðar eða bensínlítrar. 


9. „Svo fjarar hún út eftir því sem ofar kemur þegar við horfum á það hlutfallslega“: Aftur fer hún í hlutfallslegan samanburð. Fyrst þetta fjarar svona út, til hvers þá að láta þá, sem taka ekki eftir breytingu, njóta lækkunarinnar?

Staðreyndin er að skattalækkun upp á 12.500 kr. til þeirra sem eru með tekjur langt yfir almennri neysluþörf er sóun á peningum skattborgara og ríkissjóðs. Munurinn er, að peningurinn sem frúin í Hamborg gefur þessum sem fær 4,5 m.kr. á mánuði mun stytta biðina í að næst verði farið fínt út að borða eða til útlanda um nokkra daga, meðan sá með undir 325.000 kr. á meiri möguleika að eiga fyrir mat út allan mánuðinn.

Alveg er það æði furðulegt, að sjá forsætisráðherra úr þeim vinstri flokki sem er lengst til vinstri af þeim flokkum sem eru á þingi, að vera að mæra skattalækkanir til allra og hafna því að gera breytingar sem koma best út fyrir þá tekjulægstu. Ég á von á mörgum úrsögnum úr VG á næstu dögum.

Rosalega eru þessir ráðherrastólar mikilvægir fyrir VG, ef forsætisráðherrann selur sál sína fyrir þá.




Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: