Facebook Snorri Másson Miðflokki, skrifaði grein um erlent fólk á Íslandi. Hann hefur meðal annars áhyggjur hversu fæðingum hefru fækkað hér á landi.
„Hrun vestrænnar siðmenningar vofir yfir og við Íslendingar erum hvergi undanskildir. Fæðingartíðnin er farin veg allrar veraldar, innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum og að óbreyttu lenda heimamenn í minnihluta eftir nokkra áratugi, eins og hefur þegar gerst í einstaka byggðarlögum í landinu. Einstakur arfur kynslóðanna og söguleg samfella í þúsund ár eru í húfi,“ segir meðal annars í langri grein Snorra.
Neðar í greininni má lesa þetta:
„Toppurinn á ísjakanum er staða þjóðtungunnar, svo æpandi hnignunarmerki eru á menningunni að jafnvel hörðustu afneitunarsinnar geta ekki annað en kannast við staðreyndir. Nú ræðst til dæmis fram á ritvöllinn annars mistæk samviska þjóðarinnar, Bubbi Morthens, sem lýsir afdrifum tungumálsins á þessum síðustu og verstu tímum sem „hamförum“ í nýlegri fjölmiðlaherferð. Bubbi er þó sömu fjötrum bundinn og okkar helsti málfarslegi aðgerðaleysissinni, Eiríkur Rögnvaldsson.“
Hér að neðan er greinin öll.
Hrun vestrænnar siðmenningar vofir yfir og við Íslendingar erum hvergi undanskildir. Fæðingartíðnin er farin veg allrar veraldar, innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum og að óbreyttu lenda heimamenn í minnihluta eftir nokkra áratugi, eins og hefur þegar gerst í einstaka byggðarlögum í landinu. Einstakur arfur kynslóðanna og söguleg samfella í þúsund ár eru í húfi.
Viðeigandi er að einskorða hrakspár þessar ekki aðeins við þjóðmenningu, heldur beina ekki síður sjónum að þjóðarbúskapnum. Í mínum augum ber þetta að vísu að sama brunni, því að þegar við lítum á þjóðina sem fyrirtæki verður því ekki neitað að ein allra verðmætasta eignin í safninu er einmitt íslensk menning. Okkur hættir til að afskrifa þennan lið þegar við metum hagstærðir í okkar þjóðfélagi.
Við flytjum inn starfsmenn í láglaunastörf í sögulegum straumi og vörpum svo öndinni léttar að hér mælist lágmarkshagvöxtur, en spyrjum okkur ekki um leið hvað þessir ársreikningar þýða fyrir félagið til lengri framtíðar. Vissulega er veltan innan marka en er félagið raunverulega að verða verðmætara?
Slíkum spurningum verður ekki svarað með því að líta aðeins á tekjur og gjöld þessa árs. Fjölda annarra veigameiri þátta þarf að taka með í verðmatið, þar á meðal eignir sem verða ekki með góðu móti bókfærðar. Íslensk menning er dæmi um slíka eign og hún er að minnsta kosti ekki lítils virði. Hún var grundvöllur lífsgæðakraftaverks síðustu aldar. Þótt eignin sú sé óefnisleg, er hún ekki ósnertanleg. Eftir bókhaldsbrellur síðustu ára er hún þegar farin að láta á sjá.
Með lýðfræðilegri umbyltingu vegna fólksflutninga tekur menning breytingum. Þar er í húfi sjálfur galdurinn í íslensku samfélagi, djúpt samfélagslegt traust, sameiginlegur skilningur á lífinu í landinu, samheldni ef á bjátar, sameiginleg saga, stuttar boðleiðir og óskrifaðar reglur sem gera okkur kleift að skrifa ekki niður of margar reglur. Svona mætti lengi telja, enda efni í heila bók.
– Rammi leyfilegrar umræðu –
Vandinn er að þetta eru verðmæti sem maður veit varla að eru í hættu fyrr en það er orðið of seint. Haldist okkur illa á þeim er það óbætanlegt tjón fyrir hvaða félagsskap sem er, hvort sem er fyrirtæki eða þjóðfélag.
Toppurinn á ísjakanum er staða þjóðtungunnar, svo æpandi hnignunarmerki eru á menningunni að jafnvel hörðustu afneitunarsinnar geta ekki annað en kannast við staðreyndir. Nú ræðst til dæmis fram á ritvöllinn annars mistæk samviska þjóðarinnar, Bubbi Morthens, sem lýsir afdrifum tungumálsins á þessum síðustu og verstu tímum sem „hamförum“ í nýlegri fjölmiðlaherferð. Bubbi er þó sömu fjötrum bundinn og okkar helsti málfarslegi aðgerðaleysissinni, Eiríkur Rögnvaldsson.
Í þeirra hópi snarhemlar öll umfjöllun um innflytjendamál á hárréttum stað við leyfileg mörk opinberrar umræðu á frjálslyndum vinstri væng, nefnilega í léttvægum athugasemdum um ófullnægjandi aðkomu hins opinbera að íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þótt sú umræða sé áratugagömul og þótt það verkefni hafi augljóslega aldrei verið alveg raunhæft, get ég sannarlega tekið undir að útlendingar verða að hafa hér bæði hvata og tækifæri til þess að læra íslensku. Hitt þykir mér þó vafasamara að ætla að deyja á þeirri hæð, að vandræðalaust sé að skipta þjóðinni út, svo fremi sem haldin verði fleiri kvöldnámskeið í sagnbeygingum einhvers staðar uppi á Höfða.
– Aldrei ríkari en aldrei ólífvænlegri –
Nauðhyggja glóbalismans er allsráðandi og hörðustu vinstrimenn tala skyndilega eins og hörðustu iðnrekendur, að eina leiðin fram á við sé sífellt meira innflutt vinnuafl. Það gleymist að hægt var að reka hér þjóðfélag án þess með prýðilegum árangri í rúm 1100 ár, en svo allt í einu ekki. Athugum að það er ekki eins og mannfæð sé nýtt vandamál í Íslandssögunni. Á ofanverðri 19. öld brast hér á með fjöldaflótta og góð ráð dýr, munurinn ef til vill aðeins sá að kynslóð Hannesar Hafstein var ekki fús að fórna hverju sem er fyrir hagvöxt og heimsendan bragðaref.
Auðvitað eru tímarnir breyttir að nær öllu leyti en í framhaldinu vaknar önnur áleitin spurning. Á tuttugustu öld tókst að koma náttúrulegri fólksfjölgun á réttan kjöl og upp úr miðri öldinni fór fæðingartíðni yfir fjögur börn á konu. Svo fór hún dvínandi fram til um 1980 og flaut svo í þrjá áratugi þar ofan við hættumörk í kringum 2. Fyrst upp úr 2012 taka tölurnar svo marktæka dýfu niður á við, sem enn sér ekki fyrir endann á. Svo vill til að einmitt um þetta leyti eru að hefjast hinir miklu fólksflutningar hingað til lands.
Þótt hrunin fæðingartíðni sé alþjóðleg þróun og margt spili þar inn í, má telja ljóst að þessi innflytjendastraumur til Íslands helst að einhverju leyti í hendur við samdrátt í barneignum. Með öðrum orðum bendir ýmislegt til þess að hin meinta lausn við okkar mikla mannfæðarvanda vanda sé að gera hann margfalt verri.
Nýlega fræðilega umfjöllun um slíkt samband innflytjendastraums og fæðingartíðni er að finna í góðri greiningu stjórnmálafræðingsins Darel E. Paul í Compact Magazine, þar sem færð eru sannfærandi rök fyrir að einmitt slík þróun hafi einnig orðið í Tékklandi. Þar fyrir utan þarf ekki annað en líta til sögulegrar húsnæðiskreppu hér í landi eða til dæmis álags á leikskólakerfi til að átta sig á áhrifum þróunarinnar á barneignir.
– Brostnar vonir –
Tilboð taumlausrar alþjóðlegrar markaðshyggju síðustu áratuga kvað á um að þjóðir heims fengju að njóta efnahagslegs ábata af óskertum aðgangi að ódýru innfluttu vinnuafli, í skiptum fyrir væga röskun á þjóðmenningu hvers staðar. Nú renna á okkur tvær grímur, nefnilega að röskunin var allt annað en væg og svo að hinn hagræni ávinningur til lengri tíma er síst hafinn yfir vafa. Þetta þurfa jafnvel þeir að viðurkenna sem neita almennt að horfa á annað en „virði hluthafa“, því að ekki er óumdeilt að ofangreind þróun komi öll til virðishækkunar fyrir hlutabréf í íslenska þjóðarbúinu. Nema síður sé.
Vandi okkar er mannfæð vegna of lágrar fæðingartíðni. Þegar fram í sækir verðum við spurð af þessum fáu afkomendum okkar hvernig við tókum á þeim vanda. Von mín er sú að svarið verði ekki í anda læknisins forðum: Aðgerðin heppnaðist, en sjúklingurinn er látinn.