- Advertisement -

Húsið sem geðsjúkir stýrivextir byggðu

Heildarkostnaður Landsbankans, sem er alfarið í eigu ríkisins, við að byggja nýjar höfuðstöðvar við Hörpuna í miðborg Reykjavíkur var um 16,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikning bankans.

Kostnaður við húsið fór talsvert fram úr áætlun en árið 2019 var gert ráð fyrir að húsið myndi kosta tæplega 12 milljarða. Til samanburðar má nefna að  uppreiknaður byggingarkostnaður við Hörpuna var árið 2020 ríflega 24 milljarðar. Edda, nýtt húsnæði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands, kostaði ríflega 7,5 milljarða króna.

Þó húsið sé dýrt þá er óhætt að segja að bankinn eigi efni á því. Hagnaður bankans var á fyrri helmingi ársins, það er að segja á síðustu sex mánuðum, um 14,5 milljarðar króna. Vaxtatekjur bankans jukust um næstum 30 prósent, fyrst og fremst þökk sé gífurlega háum stýrivöxtum Seðlabankans. Líkt og talnaglöggir lesendur hafa líklega áttað sig á, þá fer hagnaður Landsbankans á þessu ári langt með að duga fyrir dýrum höfuðstöðvum bankans.

Stýrivextir á Íslandi er þeir hæstu í okkar heimshluta, 8,75 prósent. Ísland er í flokki með flestum löndum Suður-Ameríku, nokkrum löndum í Afríku og fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna. Annars staðar eru lægri vextir en á Íslandi og víðast miklum mun lægri.

Hjálmar Friðriksson skrifaði fyrir Samstöðuna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: