- Advertisement -

Hvernig á að berjast með kjafti og klóm?

Ætlar verkalýðshreyfingin þá bara að bíða eftir að almenningur mæti með potta og pönnur og mótmæli á Austurvelli.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

„Ef stjórnvöld vilja aðra búsáhaldarbyltingu þá verður hún með þátttöku verkalýðshreyfingarinnar sem bakland. Það mun ekki standa á okkur,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í 1. maí ávarpi sínu. Gott og vel! En hvers vegna í ósköpunum á verkalýðshreyfingin að vera bakland? Til hvers er hún ef hún sækir ekki fram og er í forystu fyrir sitt fólk? Það stefnir í hamfarir fyrir launafólk í landinu á næstu mánuðum og jafnvel árum. Og ætlar verkalýðshreyfingin þá bara að bíða eftir að almenningur mæti með potta og pönnur og mótmæli á Austurvelli. Vera svo bakland. Það gengur ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er alls ekki nóg.

Ávarp Ragnars Þórs heitir „Úr vörn í sókn“ sem er fínt heiti. En það vantar alveg að segja frá hvaða aðferðum á að beita í sókninni. Ragnar talar um hvað þarf að gera og segir svo: „Það er þó ljóst að ekkert af þessu mun koma átakalaust upp í hendurnar á okkur en reynslan sýnir að berjast þarf með kjafti og klóm til að ná minnstu hagsmunamálum almennings í gegnum kerfið á meðan frumvörp og afregluvæðing er snúa að hagsmunum fjárvaldsins rúlla í gegnum ráðuneyti og Alþingi eins og gegnumtrekkur!“

Og hvernig á að berjast með kjafti og klóm? Hvaða leiðir ætlar verkalýðshreyfingin að fara? Hvernig ætlar hreyfingin að gera þetta ef markmiðið er að vera bara bakland fyrir byltinguna? Þetta er alls ekki nóg. Verkalýðshreyfingin verður að segja frá því hvernig hún ætlar að ná þessum sóknarmarkmiðum. Sagan sýnir að það er alveg vonlaust að ætla að krefja fjármagnseigendur og stjórnvöld um eitthvað, hvað þá að vitna til réttlætis.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi er í þeirri ömurlegu stöðu að hún ræður engu þegar kemur að því að taka stórpólitískar ákvarðanir eins og stjórnvöld eru að taka í dag. Risaákvarðanir um afkomu hinna vinnandi stétta. Hvernig má það vera að það sé upp á náð og miskunn stjórnvalda að verkalýðshreyfingin hafi einhverja aðkomu!

Staðan er svona aum. Samt er verkalýðshreyfingin langstærsta hagsmunaafl landsins með hátt í 200 þúsund manns á bak við sig. Þetta er alveg rosalega sorglegt. Þessu þarf að breyta og það gerir engin nema hreyfingin sjálf með forystumönnunum í broddi fylkingar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: