„Er það vegna þess að ráðherra var beittur þrýstingi frá þeim sem vilja opna Ísland upp á gátt?“
Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason Miðflokki skrifar:
Fyrirspurn mín til dómsmálaráðherra um brottrekstur lögreglustjórans á Suðurnesjum sl mánudag:
„Undanfarið hafa verið fluttar fréttir af ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja Úlfari Lúðvíkssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, úr starfi. Fram hefur komið að það sé vegna pólitískrar sýnar ríkisstjórnarinnar og áherslubreytinga hjá embættinu. Lögreglustjórinn hefur áunnið sér virðingu og traust fyrir framgöngu sína í embætti, bæði á sviði almannavarna og á landamærunum. Fráfarandi lögreglustjóri ákvað sjálfur að nýta þær heimildir sem hann hafði og herti tökin á landamærunum þegar stjórnvöld höfðu ekki kjark eða getu til að gera slíkt. Hann hefur einnig verið ódeigur við að benda á brotalamir varðandi þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, gagnrýnt ytri landamæri svæðisins en þó fremur stjórnlausa för ýmissa hópa innan innri landamæranna, auk þess sem hann hefur bent á getuleysi stjórnvalda til að ganga eftir farþegalistum allra flugfélaga. Hvað var það við störf hans sem ekki samrýmdist pólitík ráðherra og Viðreisnar? Hvers vegna var hann rekinn? Var það vegna þess að ráðherra er svo annt um Schengen og Evrópusambandið að ekki mátti gagnrýna hin opnu landamæri? Er það vegna þess að ráðherra var beittur þrýstingi frá þeim sem vilja opna Ísland upp á gátt? Hvaða pólitík var það sem ráðherrann treysti lögreglustjóranum ekki til að fylgja eftir? Ég spyr því: Hverjar eru raunverulegu ástæðurnar fyrir þessum brottrekstri lögreglustjórans á Suðurnesjum? Ég tek fram að tilkynning til sitjandi manns í stöðu um að staða hans verði auglýst, eins og í þessu tilviki, er í raun og veru skilaboð til viðkomandi um að þjónustu hans sé ekki óskað frekar.“
„Miðflokkurinn er í tilvistarkreppu“
Fyrra svar ráðherra var aðallega um Miðflokkinn:
„Stóru tíðindin í þessu máli eru eftirfarandi: Ríkisstjórnin er að efla og stækka lögregluembættið á Suðurnesjum allverulega, efla landamærin. Á Suðurnesjum er ætlunin að koma á móttöku- og greiningarstöð og brottfararstöð. Og hvað gerist þá? Miðflokkurinn, hann ærist. Hér er ríkisstjórn sem er að samræma reglur um útlendinga við nágrannaríki okkar. Ísland er sem stendur t.d. eina Schengen-ríkið sem ekki er með brottfararstöð og fólk í staðinn vistað í fangelsum. Glæpamenn komast fyrir vikið ekki fyrir í fangelsum landsins.
Við munum öll hvernig síðustu sjö ár voru: Linnulaus átök innan ríkisstjórnarinnar um útlendingamál. Miðflokkurinn er auðvitað í tilvistarkreppu núna þegar ríkisstjórn er fram komin sem framkvæmir í útlendingamálum því þetta er eina stefnumál Miðflokksins. Jú, jú, flokkurinn skilgreinir sig til hægri, talar um hagræðingarkeisara og annað í þeim dúr en þeir hafa ekki stutt eina einustu hagræðingartillögu hér í þessum þingsal. Ekki einn þingmaður mætti í umræðu þegar ég lagði fram útlendingafrumvarp fyrir skemmstu, ekki einn. Þar erum við að taka úr sambandi kostnaðarsamar séríslenskar reglur. Áhugi Miðflokksins var enginn. Mitt fyrsta frumvarp varðaði skyldu flugfélaga til að leggja fram farþegalista, augljóst landamæramál. Það er í gangi endurskoðun á reglum um dvalarleyfi en við erum hins vegar skýr með það að fólk sem hér fær alþjóðlega vernd, skjól frá stríði — við ætlum að taka sómasamlega á móti þeim.
Mér sýnist málflutningur Miðflokksins í þessu tiltekna máli snúast um þá afstöðu að allir ríkisstarfsmenn eigi helst að vera æviráðnir. Flokkar sem skilgreina sig til hægri tala svona, gott og vel. Er þetta kannski nýja stefna Miðflokksins að þeir séu orðnir að sérlegum hagsmunasamtökum opinberra embættismanna? Viðkomandi lögreglustjóri var sannarlega ekki rekinn og ég ber traust til hans enda bauð ég honum annað embætti. Stóra málið sem Miðflokkurinn vill ekki ræða hér í dag er þetta: Það er verið að efla landamæraeftirlit, efla lögregluna á Suðurnesjum, skoða að lögreglan reki brottfararstöð og framkvæmi brottvísanir og frávísanir, vinnu sem í dag er hjá ríkislögreglustjóra. Þarna undir eru tugir starfa sem munu flytjast yfir. Þetta eru hin pólitísku tíðindi. Um þetta vill Miðflokkurinn ekki ræða,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
„Átti að senda Úlfar í einhvern Lokinhamradal?“
Ég bætti við:
„Ráðherra talar mikið um stefnu Miðflokksins. Það er reyndar gott og mætti margt af því læra en maður er engu nær eftir þetta svar ráðherra. Það hlýtur að vekja athygli í þessari umræðu þegar ráðherra er inntur eftir ástæðum þess að lögreglustjórinn á Suðurnesjum er rekinn úr starfi en það fást engar viðhlítandi skýringar. Ráðherra hefur ekki gefið neinar fullnægjandi skýringar á tilefni þessa brottrekstrar — engar. Jú, það hefur komið fram að hún hafi boðið honum starf á Austurlandi. Átti sem sagt að senda lögreglustjórann í einhvern Lokinhamradal þar sem ráðherra Viðreisnar gat ekki þolað að landamæraeftirliti eyþjóðarinnar væri sinnt af einhverri vigt á þessum mikilvægustu landamærum landsins? Þetta vekur auðvitað upp alvarlegar spurningar um stefnu Viðreisnar í þessum málaflokki. Þessi brottrekstur á þessum embættismanni er ekki til þess fallinn að vekja traust á stefnu Viðreisnar og ráðherrans í þessum málaflokki og flokkast frekar undir pólitískt sjálfsmark. Því er ekki úr vegi að spyrja ráðherra hér í síðara andsvari hvenær hún hyggst auglýsa stöðu lögreglustjórans?“
„Ekkert nýtt að Miðflokkurinn sé engu nær“
Og ráðherra svaraði:
„Ég get auðvitað ekki borið ábyrgð á því að Miðflokkurinn sé engu nær, það er ekkert nýtt í því. Þegar stórar og miklar breytingar eru gerðar á embættum þá er eðlilegt að auglýsa. Lögin mæla beinlínis fyrir um þetta og ég hvet þingmann til að lesa þau. Enginn á að teljast í áskrift að embætti, hvorki ráðherra né æðstu embættismenn, jafnvel þótt þeir hafi sinnt störfum sínum vel.
Veruleg breyting, veruleg stækkun embættis í þessu tilviki kallar á auglýsingu. Ég gerði viðkomandi embættismanni á sama tíma ljóst að heimild væri í lögum til að flytja hann í annað embætti, vildi hann ekki sækja um stöðuna aftur. Það geta allir sótt um þessa stöðu sem á henni hafa áhuga. Ríkisstjórnin er í stuttu máli verulega að styrkja lögregluna á Suðurnesjum og verulega að styrkja landamæraeftirlit með fleiri stoðum, með fleiri störfum og með sterkari lögum. Þetta er það sem við erum að gera. En auðvitað vekur það athygli að fulltrúar Miðflokksins hafa ekkert tjáð sig um þessa pólitísku hlið málsins enda held ég að í þessu máli sem öðrum sé þetta flokkur orða, engra aðgerða og fyrst og fremst óbreytts ástands.“
(Karl Gauti tekur fram að textinn sé styttur lítillega)