- Advertisement -

Ísland stendur við skuldbindingar gagnvart Úkraínu – 2,1 milljarður bætast við

Með þessari ákvörðun fer varnartengdur stuðningur Íslands við Úkraínu úr 1,5 í 3,6 milljarða á árinu.

Stjórnarráðið.

Fyrir helgi samþykkti ríkisstjórn Íslands tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um að auka varnartengdan stuðning við Úkraínu um 2,1 milljarð króna á árinu 2025. Er það meðal annars gert til að standa undir þeim skuldbindingum sem Ísland hefur gefið, meðal annars í þingsályktun Alþingis um stuðning Íslands við Úkraínu frá því í fyrra og á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins síðasta sumar.

Í ávarpi sínu á leiðtogafundinum í Kænugarði áréttaði forsætisráðherra eindreginn stuðning Íslands við Úkraínu. Sagði hún að 24. febrúar 2022 væri dimmur dagur í sögu Evrópu og að með innrás sinni hefðu Rússar þverbrotið öll alþjóðalög. Sterkari staða Úkraínu sé lykillinn að varanlegum og réttlátum friði.

„Orð eru ódýr. Verkin tala. Þess vegna hafa Norðurlönd og Eystrasaltsríkin tekið saman höndum um að styðja áfram við varnir Úkraínu með beinum hætti,” segir Kristrún sem tilkynnti um hin auknu framlög í Kænugarði í dag. „Við Íslendingar erum stolt af framlagi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fara fremst á alþjóðavísu í stuðningi við Úkraínu. Á meðal okkar er full samstaða um að standa þétt með Úkraínu á þessum viðkvæma tímapunkti þegar úkraínska þjóðin heyr varnarbaráttu sem snýr raunverulega að öryggi Evrópu allrar.“

Með þessari ákvörðun fer varnartengdur stuðningur Íslands við Úkraínu úr 1,5 í 3,6 milljarða á árinu. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Washington í júlí síðastliðnum skuldbundu bandalagsríkin sig til að veita að lágmarki samtals 40 milljörðum evra á ári í varnartengdan stuðning við Úkraínu þar sem byrðum yrði dreift milli ríkja í hlutfalli við verga landsframleiðslu (VLF). Samkvæmt því átti hlutur Íslands að nema 3,6 milljörðum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: