- Advertisement -

Ísland verkfæri Bandaríkjanna?

…þá var augljóst af vandræðum bæði Guðlaugs Þórs og Katrínar Jakobsdóttur með þennan gest…

Gunnar Smári skrifar:

Út frá ímyndarstjórn voru það mistök hjá Reykjavíkurborg að lána Höfða undir fund Mike Pence með íslensku ráðafólki. Reykjavíkurborg hefur hingað til viljað kynna Höfða sem fundarstað þar sem mikilvæg skref voru stigin til afvopnunar á fundi Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjov . Mike Pence talaði hins vegar um Höfða sem vettvang orrustu þar sem hörð stefnu Bandaríkjanna gagnvart Sovétríkjunum vann sigra, sem síðar leiddu til falls hins illa heimsveldis (svo vitnað sé til hugarheims Reagan). Og Pence boðaði nánast endurvakningu kalda stríðsins þar sem Rússar og Kínverjar væru andstæðingar Bandaríkjanna (og líklega þar með okkar Íslendinga), Norðurslóðir væru átakasvæðið og atburðarás næstu missera myndu einkennast af stórauknum viðbúnaði Bandaríkjahers, ekki síst hér á landi.

Næst ætti Reykjavíkurborg að kanna feril þeirra sem vilja fá þetta hús lánað, smá athugun hefði leitt í ljós að Pence er gagalagú eins og aðrir sem ríða nú húsum í Hvíta húsinu. Þó það réttlæti ekki einfeldningsskap ráðamanna Reykjavíkur, þá var augljóst af vandræðum bæði Guðlaugs Þórs og Katrínar Jakobsdóttur með þennan gest, að þau höfðu ekki alveg hugsað það til enda að fá þennan mann hingað til að endursemja utanríkisstefnu Íslendinga í beinni útsendingu. Svo virðist sem Pence hafi fengið þau skilaboð við undirbúning fundarins og lesið það af látbragði og orðum íslenskra ráðamanna á fundum á bak við luktar dyr, að það stæði honum í raun til boða að endursemja utanríkisstefnu Íslands; að íslensk stjórnvöld ætluðu að leyfa Bandaríkjunum að nota Ísland sem verkfæri í því kalda stríð sem Trump hefur nú blásið til; stríði sem ekki verður aðeins hart viðskiptastríð, sem mun hafa víðtækar afleiðingar, heldur mun einkennast af vopnvæðingu og vaxandi átökum hvar sem Bandaríkjastjórn telur sér ógnað.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: