- Advertisement -

Jólapakkar fjárlaganefndar

Pawel Bartoszek varaborgarfulltrúi Viðreisnar.

Pawel Bartoszek skrifaði hreint ágæta grein í Viðskiptablaðið. Þar segir:

„Þegar rýnt er í meirihlutaálit fjárlaganefndar má finna yfir 70 tilfelli þar sem hið sígilda orðalag „tímabundið framlag“ kemur við sögu. Og þar má finna margt. Þannig er gert ráð fyrir 60 milljónum vegna minnisvarða um eldsumbrotin í Heimaey. Ferðafélag fær 8 milljónir til að klára þjónustuhús. Framlag upp á 8 milljónir er veitt til að vinna að stefnumörkun um húsasafn. Þörungamiðstöð Íslands biður um 15 milljónir og fær.

Og áfram. Gerð er tillaga um tímabundið 15 milljóna framlag til Klúbbs matreiðslumeistara og Íslensku bocuse d’or akademíunnar vegna keppnismatreiðslu. Sveitarfélagið Skagafjörður biður um 88 milljónir til að leggja hitaveitulögn og fær. Sveitarfélagið Norðurþing fær 20 milljónir vegna framkvæmda við heimskautsgerði. Þessi listi af samtökum, verkefnum, stofnunum og sveitarfélögum er fá eyrnamerkt fé úr ríkissjóði er langur.

Í öðru lagi þá er það dálítið dapurlegt að fjárlaganefnd…

Óagaðasti styrktarsjóður landsins

Það er ekki markmiðið að gera lítið úr þeim verkefnum sem fjárlaganefnd hefur ákveðið að setja á fjárlög. Þau eru flest góðra gjalda verð. En það verður samt að nefna nokkra hluti. Í fyrsta lagi gefur heildarlistinn það yfirbragð að aðhaldið sé nákvæmlega ekkert. Það sést til dæmis á því hve margir þeirra sem senda fjárlaganefnd bænaskjöl fá nákvæmlega það sem þeir vilja, upp á krónu. Höfundur þekkir ágætlega til forgangsröðunar styrkbeiðna hjá Reykjavíkurborg og getur fullyrt að það heyri til undantekninga hjá borginni að fólk sæki biðji um 5 milljónir og fái 5. Hjá fjárlaganefnd virðist það hins vegar vera reglan.

Í öðru lagi þá er það dálítið dapurlegt að fjárlaganefnd, sem ætti auðvitað fyrst og fremst að horfa á stóru línurnar í fjárlögum hvers árs, hafi breytt sér í eins konar faghóp um almennar styrkjaúthlutanir. Það skal tekið fram að styrkjapottar geta verið ágætir. Við erum með rannsóknarsjóði, listasjóði og sjóði til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Þar á fólk að geta metið umsóknir faglega og forgangsraðað. Þau verkefni sem rata inn á borð fjárlaganefndar eru hins vegar mjög oft verkefni sem farið hafa í gegnum þennan feril… og fengið „nei“.

Borgin í aðhaldshug

Nú gætu einhverjir sagt að hér væri sveitarstjórnarmaður í Reykjavík að kasta steinum úr glerhúsi með því að gagnrýna ríkið fyrir rekstur. En þá er nauðsynlegt að halda því til haga að skuldahlutfall ríkisins, sem hlutfall af tekjum, er hærra hjá ríkissjóði en borgarsjóði og hlutfallslegi hallinn á næsta ári meiri hjá ríki en borg.

Aðalmálið er svo að borgin er komin í aðhaldshug. Milli umræðna í borgarstjórn voru samþykktar hagræðingarkröfur upp á einn milljarð. Margar þeirra eru umdeildar og mörgum þeirra hefur verið mótmælt. En ef eitthvað má gagnrýna okkur fyrir þá er það að hagræðingin hafi ekki verið harðari og meiri, sem hún þarf að vera á næsta ári. En við sýnum samt ábyrgð og stefnum í rétta átt. Á meðan er ríkið enn í blússandi jólaskapi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: