- Advertisement -

Segir kirkjuna fá tekjur lóðbeint úr ríkissjóði

Síðustu daga hefur staðið yfir kirkjuþing þjóðkirkjunnar þar sem kirkjuþingsfulltrúar móta starf þjóðkirkjunnar og takast á um ýmis álitamál. Fram kom í skýrslu biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, að þjóðkirkjan hafi gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum. Þar er m.a. talað um viðaukasamninginn frá 2019 þar sem ríkisstjórnin hét þessu tiltekna trúfélagi stuðningi næstu 15 ár, algjörlega óháð því hversu mikið myndi fækka eða fjölga í félaginu í fyrirsjáanlegri framtíð. Hún nefnir einnig svokallaðan fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju. Það er athyglisvert að biskup Íslands noti þetta orðalag enda er morgunljóst að tekjur þjóðkirkjunnar, eða réttara sagt biskupsstofu sem fer með yfirstjórn félagsins, koma lóðbeint úr ríkissjóði að nánast öllu leyti, sagði Píratinn Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.

Áætlaðar heildartekjur næsta árs að sóknargjöldum undanskildum eru tæplega 4,2 milljarðar samkvæmt skýrslu um fjármál þjóðkirkjunnar. Þar af er framlag ríkisins tæplega 4,1 milljarður. Þrátt fyrir að þjóðkirkjan standa ekki að neinu leyti undir sér og sé í raun best fjármögnuðu félagasamtök landsins er lögð áhersla á það í skýrslunni að reksturinn þurfi að vera sjálfbær. Nú má velta vöngum yfir merkingu orðsins sjálfbærni en varla getur rekstur sem er alfarið borinn uppi af framlögum frá ríkinu talist sérlega sjálfbær. Það getur í sjálfu sér verið í góðu lagi, til eru ýmisleg samfélagsleg verkefni sem þurfa ekki að vera sjálfbær. Hvort starfsemi trúfélaga sé slíkt verkefni ríkir kannski ekki fullkomin sátt um, hvorki hér í þingsal né á kaffistofum úti í bæ, en það er alltént ekki hægt að segja að rekstur þjóðkirkjunnar sé sjálfbær eða að farið hafi fram fjárhagslegur aðskilnaður ríkis og kirkju. Því vekur furðu að æðsti leiðtogi kirkjunnar haldi því fram, sagði hún.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: