- Advertisement -

Kristján Þór á flótta undan Hönnu Katrínu

Er eitthvað að óttast? Er slæmt að almenningur fái þessar upplýsingar eða er slæmt að þær berist fyrir kosningar? Er það slæmt? Fyrir hvern?“

Hanna Katrín Friðriksson gefst ekki upp við að reyna kreista út úr Kristjáni Þór Júlíussyni upplýsingar um eignarhald risaútgerðanna í fyrirtækjum hér og þar. Það er öðrum en í sjávarútvegi. Kristján Þór situr á upplýsingunum.

„Fyrir tæpum sex mánuðum óskaði ég eftir upplýsingum frá sjávarútvegsráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi, öðru en sjávarútvegi. Þriðjungur þingmanna var með mér á skýrslubeiðninni sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í þingsal. Ráðherrar hafa tíu vikur til að skila umbeðnum skýrslum. Eftir að tíu vikna fresturinn var liðinn barst mér reyndar ósk frá ráðuneytinu um að beiðnin yrði afmörkuð. Ég varð við því. Síðan eru liðnar 14 vikur, samtals tæpt hálft ár. Upplýsingarnar sem ég óskaði eftir byggjast á gögnum um útgerðarfélögin sjálf, dótturfélög þeirra, eignarhaldsfélög þeirra og dótturfélög eignarhaldsfélaga þeirra, hvort sem félögin eru skráð á Íslandi eða erlendis, „sagði Hanna Katrín á Alþingi.

Hanna Katrín hélt áfram: „Sterk fjárhagsstaða stærstu útgerðarfélaganna byggist á einkaleyfi þeirra til nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi. Uppi eru vísbendingar um að fjárfestingar þessara félaga út fyrir greinina hafi aukist verulega. Slíkt getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni og íslenskt samfélag er sérstaklega viðkvæmt fyrir óeðlilegum og skaðandi ítökum sérhagsmunaafla. Skýrslan, þegar hún kemur fyrir sjónir almennings, mun veita mikilvægar upplýsingar um raunveruleg áhrif aðila sem hafa ótímabundið einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar, um áhrif þessara aðila á íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag, aðila sem hafa ótímabundið einkaleyfi í boði ríkisstjórnarinnar. Spurt er: Af hverju er þessi töf á samantekt á upplýsingum sem flestar liggja fyrir eða eru opinberar? Er eitthvað að óttast? Er slæmt að almenningur fái þessar upplýsingar eða er slæmt að þær berist fyrir kosningar? Er það slæmt? Fyrir hvern?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: