- Advertisement -

Ríkisstjórnarflokkarnir aldrei staðið veikar

Stjórnmál Samkvæmt könnun Gallup yfir marsmánuð hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki notið minna fylgis á kjörtímabilinu. Samanlagt segjast 31,1% aðspurða styðja einhvern af flokkunum þremur. Flokkarnir fengu 54,3% atkvæða í kosningunum í september 2021 og hafa því misst frá sér stuðning 42,3% kjósenda sinna.

Grafið sýnir þróun samanlagðs fylgis ríkisstjórnarflokkanna frá kosningum. Punktalínurnar sýna kjörfylgi flokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 18,2% og hefur aðeins einu sinni mælst með minna fylgi, 18,1% í desember síðastliðnum. Framsóknarflokkurinn mælist með 7,3% fylgi og hefur ekki mælst með minna fylgi á kjörtímabilinu. Vg mælist með 5,6% fylgi, hefur þrisvar mælst með minna fylgi, í nóvember í fyrra og í janúar og febrúar á þessu ári.

Fjórðungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa snúið baki við flokknum, 56% kjósenda Vg og 58% kjósenda Framsóknar. Það er því ekki að sjá að niðurstaða kjarasamninga eða uppgjör við fasteignaeigendur í Grindavík hafi bætt stöðu ríkisstjórnarflokkanna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ríkisstjórnin hefur undanfarna mánuði gengið í gegnum mörg mál sem reynt hafa á samstarfið, en staðist þau. Nú virðist hún hins vegar vera við það að falla vegna löngunar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til að fara í framboð til forseta. Þingmenn Framsóknar og Vg vilja að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram með þeirri breytingu að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, yrði forsætisráðherrar. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja skoða aðra kosti einnig, jafnvel að mynda ríkisstjórn með öðrum flokkum eða jafnvel boða til kosninga fljótlega eftir forsetakosningar.

Í könnun Gallup er Samfylkingin nánast með sama fylgi og ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt. Í dag er Samfylkingin með 6 þingmenn en ríkisstjórnin 38. Þessi samanburður sýnir vel þær hræringar sem gengið hafa yfir stjórnmálin eftir að cóvid-þokan leystist upp.

Ef við skoðum breytingar frá kosningum þá eru þetta örlög flokkanna:

Þessir bæta við sig:
Samfylkingin: +21,0 prósentur
Miðflokkur: +7,5 prósentur

Þessi standa í stað:
Sósíalistar: -0,2 prósentur
Píratar: -0,8 prósentur
Viðreisn: -1,2 prósentur

Þessir missa fylgi:
Flokkur fólksins: -2,6 prósentur
Sjálfstæðisflokkur: -6,2 prósentur
Vg: -7,0 prósentur
Framsókn: -10,0 prósentur

Líklegasta ríkisstjórnin miðað við niðurstöður könnunarinnar nú er tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks með 33 þingmenn. Annar kostur er Reykjavíkurmódelið með Samfylkingu, Framsókn, Pírötum og Viðreisn með 35 þingmenn. Aðrir kostir eru mun langsóttari.

Gunnar Smári vann fréttina fyrir Samstöðina.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: