- Advertisement -

Landsliðsfyrirliðinn ósammála formanni KSÍ: „Þetta hefur ekki verið rætt mikið innan hópsins“

„Við erum með ungt lið, þeir hafa sjálfir sagt að neikvæðnin hefur slæm áhrif á þá,“ skrifar Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ á Facebook-síðu sinni; færsluna má sjá í fullri lengd neðst í greininni.

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.

Landsliðsfyrirliðinn Birkir Bjarnason var spurður út í orð Vöndu á fréttamannafundi; einnig hvort sú neikvæða gagnrýni sem hefur verið í gangi smitist alla leið inn í leikmannahópinn og hafi þar slæm áhrif?

Birkir sagði við blaðamann fotbolta.net að „ég er ekki alveg sammála því. Þetta hefur ekki verið rætt mikið innan hópsins. Eins og Arnar var að segja þá mega allir hafa sínar skoðanir. Við sem hópur vitum fyrir hvað við stöndum og hvað við erum að gera á æfingum,“ sagði Birkir og bætti við:

Leikurinn gegn Ísrael fer fram á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 18:45.

„Við erum að bæta okkur á mörgum sviðum og einbeiting okkar verður að vera á okkur sjálfa, ekki því sem kemur utan frá. Þannig verðum við að hugsa um þetta.“

Ísland mætir Ísrael í Þjóðadeildinni í kvöld á Laugardalsvelli, en landsliðið fékk afar mikla gagnrýni eftir sigurleikinn gegn San Marínó í liðinni viku, 1-0, en landslið San Marínó er með allra slökustu landsliðum heims um þessar mundir.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fékk harða gagnrýni þrátt fyrir sigur gegn San Marínó.

Birkir var vissulega ekki með í þeim leik, en tjáði sig þó um hann.

„Við erum auðvitað ekki ánægðir með leik­inn en ég er sam­mála Arn­ari að við verðum bara að skilja hann eft­ir og ein­beita okk­ur frek­ar að leikn­um sem skipt­ir máli sem er á morg­un.“

Facebook-færsla Vöndu Sigurgeirsdóttur formanns KSÍ:

„Sem fræðikona á sviði tómstunda- og félagsmálafræða og eineltisforvarna get ég ekki orða bundist um umræðuna um bros, gleði og leiki A landsliðs karla í fótbolta.

Myndirnar og myndböndin sem um ræðir eru öll tekin í upphitun. Það er þekkt í „team-building“ fræðunum að nota svokallaða ísbrjóta til að hita hópinn upp, efla tengs, kynnast betur og hafa gaman. Partur af því að auka samkennd, samvinnu og liðsanda.

Sjálf hef ég kennt þessi vinnubrög í áratugi. Sem formaður KSÍ vil ég segja að í venjulegu árferði hefur aldrei verið eins mikil umferð um samfélagsmiðla KSÍ og aldrei meira efni sett út.

Að starfsfólk samskiptadeildar KSÍ sendi út myndir og myndbönd af leikmönnum í upphitun (því ekki viljum við setja myndbönd af taktískum æfingum) finnst mér mjög jákvætt. Að þjálfarar noti ísbrjóta í upphitun finnst mér sömuleiðis mjög jákvætt. Sjálf hef ég mjög gaman af þessu, hlæ oft upphátt og ég VEIT að þegar upphitun er lokið tekur alvaran við.

Við þjálfara sem eru að þjálfa börn og fullorðna út um allt land vil ég segja:

Látið þessa umræðu ekki hafa áhrif á ykkur, haldið áfram að nota ísbrjóta og leiki sem hlut af upphitun og hlut af liðsheildarvinnu. Til umhugsunar, svona almennt: Við erum með ungt lið, þeir hafa sjálfir sagt að neikvæðnin hefur slæm áhrif á þá. Hefur þessi umræða þau áhrif að þeir hætta að þora að hlægja á æfingum? Erum við með allri neikvæðninni að brjóta niður stoltið og sjálftraustið? Auka kvíða? Er þessi neikvæðni besta leiðin til að bæta árangur?

Mér finnst uppbyggjandi gagnrýni sjálfsögð og tek henni fagnandi – nefni t.d. grein Viðars Halldórssonar á fotbolti.net. – en mér finnst umræðan oft á tíðum komin út fyrir það – og vera orðin skemmandi en ekki bætandi.

Ég ætla að vera í jákvæða-liðinu og skora á almenning að koma þangað með mér. Gríðarlega mikilvægur leikur við Ísrael á mánudaginn, áfram Ísland!“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: