- Advertisement -

Ný ofurskerðing sett á öryrkja

„Þannig ætla stjórnvöld að vera með svipuna á lofti gagnvart öryrkjum, vera með refsivöndinn á lofti gagnvart þessum tekjulægsta hópi samfélagsins.“

Jóhann Páll Jóhannsson.
„Svo eru það refsingarnar. Til þess að fá virknistyrk og njóta fullrar framfærslu þarf öryrkinn að vera reiðubúinn að taka hverju því starfi sem býðst, óháð menntun, áhugasviði og hæfileikum.“

Alþingi „Fyrir velferðarnefnd Alþingis liggur frumvarp frá hæstvirtum félagsmálaráðherra um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu. Þar er margt gott og mikilvægt en á frumvarpinu eru líka mjög alvarlegir ágallar, stórhættulegir ágallar sem ég tel að Alþingi verði að bregðast við ef ætlunin er að afgreiða málið í sæmilegri sátt. Þá vil ég nefna sérstaklega reglur um svokallaðan virknistyrk, sem verður 95.000 kr. og ætlaður þeim sem eru metnir með takmarkaða starfsgetu og settir á hlutaörorkulífeyri. Þessi styrkur mun falla alfarið niður um leið og fólk vinnur sér inn 1 kr. í atvinnutekjur, þannig að ef öryrki þiggur hlutastarf og fær greiddar 100.000 kr. á mánuði þá sitja eftir 5.000 kr. fyrir skatt. Hér er verið að búa til nýja ofurskerðingu sem vinnur gegn atvinnuþátttöku. Með þessu eru öryrkjar í atvinnuleit í raun látnir sæta strangari reglum heldur en aðrir atvinnuleitendur af því að þeir njóta í dag 86.000 kr. frítekjumarks á mánuði og hafa svigrúm til að sinna tilfallandi vinnu án þess að verða fyrir skerðingum. Það verður strangara hjá öryrkjum.“

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson á Alþingi í gær.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra og formaður Vinstri grænna.
Samsett mynd.

„Svo eru það refsingarnar. Til þess að fá virknistyrk og njóta fullrar framfærslu þarf öryrkinn að vera reiðubúinn að taka hverju því starfi sem býðst, óháð menntun, áhugasviði og hæfileikum. Ef öryrkinn hafnar starfi eða atvinnuviðtali er honum refsað með tveggja mánaða niðurfellingu virknistyrksins. Ef það gerist aftur er honum refsað með þriggja mánaða niðurfellingu í viðbót. Þannig ætla stjórnvöld að vera með svipuna á lofti gagnvart öryrkjum, vera með refsivöndinn á lofti gagnvart þessum tekjulægsta hópi samfélagsins, fólki sem á einmitt skilið að njóta virðingar, öryggis og mannlegrar reisnar, ekki að vera niðurlægt og sett í eitthvert hamstrahjól til að spara aurinn og þjóna kröfum atvinnulífsins. Þannig eigum við ekki að umgangast almannatryggingakerfið okkar. Við skulum breyta þessu og laga þetta strax. Svo er reyndar miklu fleira sem þarf að laga í þessu frumvarpi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: