- Advertisement -

Laugavegurinn verður lokaður í allan vetur

Nú er ljóst að þeim peningum var fleygt þráðbeint út um gluggann.

Búið er að ákveða að Laugavegurinn og aðrar götur í miðbænum verði einnig lokaðar fyrir bílaumferð í allan vetur. Allt til næsta vors þegar nýtt skipulag tekur gildi.

„Hér er lýst yfir algjörum forsendubresti. Borgarstjóri og meirihlutinn tekur einhliða ákvörðun um lokun Laugavegarins allt árið um kring einungis 21 degi fyrir fyrirhugaða opnun fyrir bílaumferð. Fyrirvarinn er enginn. 30 milljónum var eytt í sérstakt kynningarátak á þessu svæði í sumar og tilgangurinn var að „glæða miðbæinn lífi“. Nú er ljóst að þeim peningum var fleygt þráðbeint út um gluggann en gæluverkefnin þurfa sitt,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir.

„Nú er verið að samþykkja bráðabirgðaverkferli um að hafa Laugaveginn og þær götur í nágrenni hans sem skilgreindar hafa verið göngugötur lokaðar fyrir bílaumferð til 1. maí 2021 eða þar til nýtt deiliskipulag tekur gildi um varanlega lokun. Þessi ákvörðun kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Með öðrum orðum – það er búið að skella Laugaveginum í lás til framtíðar án nokkurs samráðs við rekstraraðila sem þó eru að berjast í bökkum að halda uppi þjónustu svo að miðbærinn sé ekki steindauður. Þetta eru ískaldar kveðjur frá meirihlutanum í upphafi hausts, ekki bara til rekstraraðila heldur líka landsmanna allra. Borgarstjóri og meirihlutinn eiga ekki Laugaveginn og nágrenni hans,“ bókaði Vigdís.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hér er um mikilvægt mál að ræða ekki síst í ljósi þess hvernig komið er fyrir þessu svæði. Þar er nú varla hræðu að sjá,“ bókaði Kolbrún Baldursdóttir. Flokki fólksins, á fundi skipulags og samgönguráðs.

„Undirrituð styðja við fjölgun göngugatna í miðborginni. Kannanir sýna að meirihluti íbúa er jákvæður gagnvart göngugötum og að jákvæðust séu þau sem heimsækja svæði göngugatna að minnsta kosti vikulega. Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í ráðinu samþykkja því tillöguna um framlengingu tímabundinna göngugatna þar til 1. maí 2021 eða þegar nýtt deiliskipulag fyrir varanlegar göngugötur tekur gildi,“ segir meirihlutinn í borgarstjórn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: