- Advertisement -

Launum verkafólks haldið niðri

Atvinnurekendur hafa rakað til sín gróða í góðærinu.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Efling og þrjú önnur verkalýðsfélög undirbúa í dag verkfall eftir að upp úr viðræðum þeirra við SA slitnaði í gær. Ekki varð lengra komist í viðræðum deiluaðila hjá sáttasemjara.

Samtök atvinnulífsins lögðu fram tilboð til verkalýðsfélaganna, sem félögin töldu ekki ganga nógu langt. SA bauð 15-20 þúsund kr. kauphækkun á mánuði, eða 5-6,7% launahækkun í hverjum áfanga. Tilboðið gerði ráð fyrir, að laun mundu hækka um sömu upphæð til viðbótar eftir eitt ár og á ný um sömu upphæð eftir tvö ár.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kauphækkun á þremur árum yrði þá 45-60 þúsund kr. eða 15- 20%. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar voru þær, að laun myndu hækka um 125 þúsund kr. á þremur árum eða í 425 þús eða í 313 þús. eftir skatt. (Verkalýðsfélögin lækkuðu kröfu sína í 411 þúsund).

Lágmarkslaun verkafólks í dag eru 300 þúsund kr fyrir skatt eða 235 þús kr. eftir skatt á mánuði. Þetta eru sultarlaun og algert mannréttindabrot að skammta verkafólki svo skammarlega lág laun. Má það furðulegt heita, að í uppsveiflu efnahagslífsins skuli atvinnurekendur hafa komist upp með það að halda launum verkafólks svo mjög niðri. Og atvinnurekendur hamast við að reyna áfram að hindra eðlilegar kjarabætur og njóta við það verk stuðnings stjórnvalda og seðlabankastjóra!

Verkalýðshreyfingin ætlar ekki að láta berja sig niður heldur undirbýr hún nú átök við atvinnurekendur með verkfalli. Það vopn er aðeins notað í neyð; þegar verkafólk þarf að berjast fyrir lífi sínu eins og nú.

Atvinnurekendur hafa rakað til sín gróða í góðærinu en verkafólk hefur á engan hátt notið uppsveiflu efnahagslífsins. Enda þótt yfirstéttin hafi hrifsað til sín óheyrileg ofurlaun í gegnum kjararáð og þar fyrir utan hefur verkafólki, öldruðum og öryrkjum verið skammtað laun við fátæktarmörk. Laun alþingismanna voru hækkuð um 80% á fáum árum og laun ráðherra hækkuð um 64% á sama tímabili. Laun þingmanna voru hækkuð í 1,1 millj. kr. á mánuði fyrir utan miklar aukagreiðslur og laun ráðherra hækkuð í 1,8-2 millj. fyrir utan mikil hlunnindi. Jafnframt hefur orðið gífurleg launahækkun hjá embættismönnum, bankastjórum, forstjórum fyrirtækja og fl.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: