- Advertisement -

Milljarðasamlagningar og prósentuþvæla

Alþingi Steingrímur J. Sigfússon beindi orðum sínum til félagsmálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur á Alþingi í gær. Hann gaf ekki mikið fyrir skýringar Eyglóar á hækkun bóta til öryrkja og eldra fólks.

„Svona rugl um milljarðasamlagningar sem ekki horfir til magnaukningar í kerfinu, fjölgunar elli- og örorkulífeyrisþega og slíkra hluta, eða prósentuþvæla breytir ekki veruleika þessa máls. Ríkisstjórnin og hennar lið ætlar að skilja þennan eina hóp eftir — þennan eina hóp. Hann á ekki að fá neinar kjarabætur á þessu ári. Það er veruleikinn. Það er þá kannski helst að leika eigi námsmenn í landinu svipað grátt. Þetta er hörmuleg frammistaða, hæstvirtur félagsmálaráðherra. Hér færðu tækifæri til að gera betur. Segðu okkur að minnsta kosti að þú hefðir viljað hafa þetta öðruvísi.“

„Við munum halda áfram að bæta kjör þessara hópa eins og við höfum verið að gera,“ sagði Eygló meðal annars. Við erum með tillögur sem snúa að verulega breyttum húsnæðisstuðningi, en fram kemur í rannsókn Hagstofunnar að leigjendur eru mun líklegri til þess að vera fyrir neðan lágtekjumörk en húseigendur. Það hefur að vísu batnað í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. það hlutfall hefur lækkað. Öryrki sem býr einn mun í nýju húsnæðisbótakerfi fá um 9 þús. kr. meira en í núverandi kerfi, skattfrjálst. Síðan áætlað er að fjárveitingin til opinbers húsnæðisstuðnings til leigjenda muni aukast um 2 milljarða á ári í tveimur skrefum, verði frumvarpið að lögum. Við gerum ráð fyrir 1,1 milljarði kr. árið 2016 í hækkun húsnæðisbóta.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: