- Advertisement -

Námslán verði afskrifuð

- þegar lántakandi verður 67 ára. Málið verður rætt á Alþingi í dag.

Alþingi ræðir í dag frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar er gert ráð fyrir talsverðum breytingum. Sjá frumvarpið hér.

Það eru þingmenn Samfylkingarinnar sem leggja frumvarpið fram. Meðal þess sem er gert ráð fyrir að breytist er að námslán verði afskrifuð þegar lántakendur verða 67 ára. Vitað er að eldri borgarar sem skulda námslán þegar starfsævi lýkur eiga oft í greiðsluvanda. Ekki síst konur.

Í greinagerð með frumvarpinu segir meðal annars, um þetta atriði, að lagt verði til að námslán falli niður á því ári þegar skuldari nær 67 ára aldri að því tilskildu að hann sé í fullum skilum við sjóðinn. „Þetta á við í tilfellum þar sem skuldari hefur ekki náð að greiða upp námslán sitt við 67 ára aldursmarkið þegar flest launafólk hefur töku lífeyris en samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er meðaluppgreiðslutími námslána um 20 ár. Hafi skuldari lent í vanskilum við sjóðinn á síðustu þremur almanaksárum á undan því ári er hann verður 67 ára er gert ráð fyrir að heimilt sé engu síður að afskrifa lánið. Er þá miðað við að afskrifuð verði sú fjárhæð sem nemur því að efndir hefðu verið réttar. Þannig ber skuldara að greiða það sem vanskilunum nemur. Er með þessu komið til móts við þá skuldara sem geta lent í erfiðleikum þegar þeir nálgast eftirlaunaaldurinn auk þess sem reistar eru skorður við því í frumvarpinu að stjórn sjóðsins gjaldfelli allt lánið með stoð í 3. mgr. 11. gr. laganna á nefndu þriggja ára tímabili vegna verulegra vanskila. Þá er það skilyrði að námslán hafi verið tekið fyrir 54 ára aldur til þess að koma í veg fyrir að einstaklingar sem hefja námslánshæft nám skömmu fyrir 67 ára aldur fái það fellt niður án þess að hafa greitt það niður svo nokkru nemi.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: