- Advertisement -

Nei, sko, nýfrjálshyggjan lifir

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Nei, sko, nýfrjálshyggjan lifir. Hér heldur bankasýslan (sem er annað heiti yfir trúnaðarvini Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins) því fram að tekjur ríkisins aukist með því að lækka skatta á fyrirtækja- og fjármagnseigendur. Hið rétta er að þessi skattastefna nýfrjálshyggjunnar brýtur niður velferð og grunnkerfi samfélagsins, veldur hrörnun innviða, aukinni gjaldtölu af almenningi fyrir opinbera þjónustu, hærri sköttum á millitekjufólk, láglaunafólk, öryrkja og eftirlaunafólk, minnkandi trausti í samfélaginu, lakari heilsu, minni lífslíkum, fleiri glæpum og margvíslegu niðurbroti samfélagsins. Þetta vita allir. Líka Bjarni Ben og vinir hans. Þeir ætla hins vegar að græða á þessu og er því sama.

Þannig virkar valdarán þjófanna.

Í því þjófræði sem við búum við innan alræðis auðvaldsins, þegar það rekur sjálft og milliliðalaust ríkisvaldið og lætur greipar sópa um eignir og auðlindir almennings, eru leikreglurnar þessar: VG lyftir Bjarna Ben, þekktum skattsvikara og guðföður stjórnmálaarms Engeyjarættarinnar, til valda. Hann skipar vini sína í stjórn bankasýslu ríkisins, sem tryggja að þar sé aðeins ráðið fólk sem er innmúrað og innvígt inn í þá auðmannaklíku sem nú er allsráðandi innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta er gert með blessun allra flokka á þingi, sem líta á það sem forsendu fyrir sínum eigin áhrifum að gefa allt vald til Sjálfstæðisflokksins, allt það sem hann biður um (stundum gefur hann eitthvað smotterí frá sér sem hinir flokkarnir þá slást um). Til að selja bankana lætur Bjarni trúnaðarvini sína í bankasýslunni semja skýrslu um bankasölu og lætur svo eins og það sé ekki hans hugmynd, heldur stofnunar út í bæ, að selja bankanna. Hann lætur sem hann sé bara að fylgja eftir tillögum óháðra sérfræðinga og fara að ráðum bestu manna. Þetta er síðan lagt fyrir ríkisstjórn, sem blessar þessa faglegu niðurstöðu, og sömuleiðis þingflokkar og síðan þingið sjálft, sem þegar hefur beygt sig undir að Sjálfstæðisflokkurinn ráði í öllu sem tengist viðskiptalífinu, dómskerfinu, sköttum og skatteftirliti (þ.e. að hafa ekkert eftirlit með hinum ríku) og öðru þvi sem honum hugnast. Svo verða bankarnir seldir. Þrátt fyrir að 80% þjóðarinnar vilji það ekki. Þannig virkar valdarán þjófanna. Með blessun þeirra sem alþýðan kýs til að gæta hagsmuna sinna. Bjarni má selja (og kaupa sjálfur) bankanna ef við fáum að flýta jafnlaunavottun eða einhverjum þeim hluta kvennabaráttunnar sem konurnar innan Sjálfstæðisflokksins styðja. Eða skipa nýja nefnd um afleiðingar sykurskatts. Eða með því að fara með eftirfarandi möntru: Við björguðum þjóðinni frá stjórnmálalegri upplausn í kjölfar hruns nýfrjálshyggjunnar með því að mynda ríkisstjórn um endurreisn nýfrjálshyggjunnar.

Þið haldið að ég sé að plata en svo er ekki. Þetta er í alvörunni svona heimskt.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: