- Advertisement -

„Omar bjargaðist en Hysia og yngri sonur hennar hurfu í hafið“

Gísli Rafn Ólafsson:
Því miður er saga Omars, Hysiu og Mohamets ekkert einsdæmi. Hundruð hælisleitenda látast á hverju ári í Miðjarðarhafinu.

„Hvers konar þjóðfélag er það sem sendir fólk út á gaddinn, treður á sjálfsögðum réttindum fólks, einungis vegna þess hvar það fæddist, og tekur síðan ekki við börnum í neyð? Það er a.m.k. ekki þjóðfélag sem ég vil sjá hér á Íslandi og mun ég því gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva þann rasisma og það mannhatur sem felst í þeim frumvörpum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt fram í samráðsgátt um málefni útlendinga,“ sagði Píratinn Gísli Rafn Ólafsson.

Fyrr sagði hann:

„Í dag langar mig að segja sögu 14 ára drengs sem heitir Omar. Omar, móðir hans Hysia, sem var 39 ára, og yngri bróðir hans, Mohamet, sem var níu ára, reyndu að komast yfir Miðjarðarhafið 31. desember sl. Þau lögðu af stað í litlum bát frá borginni Oran á strönd Alsírs ásamt 13 öðrum hælisleitendum. Í upphafi gekk ferðin vel en þegar nær dró strönd Spánar versnuðu veðurskilyrðin. Það kom mikil þoka og mjög dró úr skyggni. Allt í einu kom stór alda. Sennilega var stórt skip að sigla nálægt þeim. Bátnum þeirra hvolfdi um klukkan tvö að nóttu á nýársdag utan við strendur Andalúsíu. Allir sem voru um borð lentu í sjónum. Hysia reyndi allt til þess að bjarga börnum sínum tveimur. Hún náði taki á tómum bensínbrúsa og þau notuðu hann til að halda sér á floti. En það leið ekki á löngu þar til yngri sonurinn missti takið og Hysia synti á eftir honum. Omar hélt fast í bensínbrúsann og sá þau hverfa inn í þokuna. Næsta morgun var Omari bjargað um borð í flutningaskip sem átti leið hjá. Hann hafði þá haldið sér í bensínbrúsann í yfir sjö klukkustundir. Þegar Omar bjargaðist um borð í flutningaskipið var hann nær dauða en lífi, en þeim tókst að hlýja honum og gáfu honum svo að borða. Flutningaskipið kallaði upp gæsluskip frá Alsír og þeir tóku hann aftur til Oran. Omar bjargaðist en Hysia og yngri sonur hennar hurfu í hafið. Því miður er saga Omars, Hysiu og Mohamets ekkert einsdæmi. Hundruð hælisleitenda látast á hverju ári í Miðjarðarhafinu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: