- Advertisement -

Ráðherrann er í vasa Samherja

Hnignun byggðanna má hins vegar rekja beint til kvótakerfisins.

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Viðtalið við Svan Guðmundsson á Harmageddon, framkvæmdastjóra „Bláa hagkerfisins“ staðfestir hve röksemdafærsla þeirra sem vilja óbreytt kvótakerfi í sjávarútvegi stendur á veikum brauðfótum.

Augljós merki hnignunar íslensks sjávarútvegs eru að verða augljósari. Allt stefnir í að örfá fyrirtæki, sem má telja á fingrum annarrar handar hafi yfir megninu af veiðiheimildum að ráða og þrengt er stöðugt að minni aðilum m.a. strandveiðibátum sjálfstæðum fiskvinnslum.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Sigurjón Þórðarson:
„Það er svo margt í viðtalinu ef ekki allt sem er beinlínis víðáttuvitlaust.“

Markaðsstarf er í molum, enda hefur megin markmið útvegsrisanna verið að króa af meira af aflaheimildum, en alls ekki að búa til vörumerki hreinleika, sem neytendur þekkja. Með því að komast yfir aflaheimildir hafa þeir fengið rétt til þess að vigta aflann með sínu lagi inn í eigin fiskvinnslur, greiða lægri laun til sjómanna og selja fiskinn í gegnum sín sölufyrirtæki sem skráð eru í skattaskjólum – Jú jú það hefur verið fjárfest að einhverju leyti í tæknifyrirtækjum en á stundum virðist sú fjárfesting snúast um að kaupa aflátsbréf, til að réttlæta einokunarsyndirnar. Ef fyrirtækin væru jafn öflug og gefið er í skyn, þá væri sjávarútvegsráðherra sem er í vasa Samherja ekki að boða að stórútgerðin geti geymt stóran hluta af veiðiheimildum ársins til næsta árs, þvert á öll lögmál líffræðinnar. Stefnan væri að auka veiðar til að koma þjóðinni út úr kreppunni. Stórútgerðin virðist hvorki hafa áhuga né getu til þess koma fisknum í verð nú um stundir á meðan sjálfstæðar vinnslur og sölumenn komast ekki í hráefnið!

Aftur að viðtalinu við Svan sem virðist vera sendur út af örkinni til þess að reka áróður fyrir óbreyttu kvótakerfi. Það verður að segjast eins og er að ef þessi kappi er helsta tromp SFS (LÍÚ) sem á að sannfæra almenning um ágæti kerfisins, þá eru samtökin í verulega vondum málum.

Gjaldþrot Íslandsbanka var eitt af stærri gjaldþrotum veraldarsögunnar.

Það er svo margt í viðtalinu ef ekki allt sem er beinlínis víðáttuvitlaust m.a. að halda því fram að sjávarútvegur fyrir daga kvótakerfisins hafi verið einhver olnbogabarn á samfélaginu, en ekki atvinnuvegurinn sem byggði upp Ísland og sjávarbyggðirnar á 20. öldinni. Hnignun byggðanna má hins vegar rekja beint til kvótakerfisins.

Það að halda því fram að ekki hafi fiskast fyrir olíukostnaði fyrir daga kvótans og að Þorsteinn Már hafi fundið upp frystitogara er svo galið að það nær engri átt, þar sem frystitogarar voru siglandi um heimshöfin áður en sá ágæti maður kom í heiminn. Sömuleiðis er furðulegt að halda því fram að kvótaþegar búi við hörð samkeppnisskilyrði. Vissulega er rétt að menn sem hafi haft yfir miklu fiskveiðiheimildum að ráða, hafi farið illa í viðskiptum, en það er þá venjulega þegar viðkomandi hafa reynt fyrir sér í öðrum rekstrri t.d. bankaviðskiptum, fiskeldi, bílainnflutningi og pizzugerð. Þekktasta dæmið er eflaust að bankarekstur núverandi forstjóra Samherja, en gjaldþrot Íslandsbanka var eitt af stærri gjaldþrotum veraldarsögunnar.

Í viðtalinu fullyrti Svanur að hrun þorskstofnsins við Kanada mætti rekja til ofveiði, en þeir sem fylgjast grannt með sjávarútvegsmálum vita að umhverfisáhrif þ.e. kólnum sjávar með tilheyrandi fæðubresti var um að kenna.

Í framhaldi af þessu viðtali er eðlilegt að spyrja hvort að Svanur Guðmundsson sé í raun og veru sjávarútvegsfræðingur – hefur einhver séð prófskírteinið?


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: