- Advertisement -

Ríkisstjórnin hefur brugðist þjóðinni

„Því miður hefur ríkisstjórnin skitið upp á bak í Covid-málinu og það bæði í bóluefnamálinu og sérstaklega í vörnum gegn veirunni á landamærum.“

„Klúður ríkisstjórnarinnar í veiruvörnum vegna breska afbrigðis veirunnar er komið í ljós. Því miður hefur ríkisstjórnin skitið upp á bak í Covid-málinu og það bæði í bóluefnamálinu og sérstaklega í vörnum gegn veirunni á landamærum. 17 greindust með kórónuveiruna innan lands í gær, sem vitað er um. 14 þeirra sem greindust voru í sóttkví en þrír utan sóttkvíar. Svo margir hafa ekki greinst hér á landi á einum degi síðan um mánaðamót nóvember/desember,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.

Orðaval Guðmundar Inga fór fyrir brjóstið á Steingrími J. Sigfússyni þingforseta: „Forseti verður að hvetja háttvirtan þingmann til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með orðbragði sem er húsum hæft. Forseti gerir alvarlegar athugasemdir við það orðfæri sem háttvirtur þingmaður notaði hér áðan.“

Aftur að ræðu Guðmundar Inga:

Ríkisstjórnin hefur sleppt lausri fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins.

„Þá mígleka landamærin eins og þau hafa gert lengi. Þar greindust fimm í gær og þar af þrír í fyrri landamæraskimun og tveir í þeirri seinni. Af þeim 17 sem greindust með kórónuveiruna í gær var stór hluti börn og voru sum utan sóttkvíar. Hvað gerir ríkisstjórnin í málinu? Heldur hún áfram meðalmennskunni eða girðir hún sig í brók og grípur til harðra aðgerða hið snarasta? Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í Covid-málunum eru á engan hátt boðleg eftir að ný sóttvarnalög voru samþykkt. Hún hefur brugðist þjóðinni með því að nota ekki þau nýju úrræði sem eru í boði. Hvað næst? Rauður dregill fyrir brasilísku veiruna frá Austfjörðum því að þar grasserar hún um borð í skipi með súrál? Það gagnast ekki ríkisstjórninni að vera áfram meðalhófssúr yfir gangi mála eða álkuleg yfir að hafa verið of sein að loka landamærunum fyrir bresku veirunni því að betra er seint en aldrei. Flokkur fólksins segir: Lokum öllu strax. Inga Sæland, formaður flokksins, sagði þetta fyrir ári í Kastljósi og var höfð að háði og spotti fyrir. En miðað við stöðuna í dag höfðum við í Flokki fólksins rétt fyrir okkur, allan tímann. Já, fullkomlega rétt fyrir okkur. Ríkisstjórnin hefur sleppt lausri fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins og breska afbrigðið er inni í landinu og það brasilíska bíður eftir að vera sleppt þar einnig. Flokkur fólksins segir: Það er kominn tími til að skella öllu í lás, að harðar samkomutakmarkanir verði teknar upp eða eins og þær voru verstar í vetur. Því er verr og miður.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: