- Advertisement -

„Ríkisstjórninni til háborinnar skammar“

„Að þurfa að bíða í nær tvo mánuði eftir því að komast að hjá heimilislækni er fáránlegt. Skyldi það vera vegna þess að ríkisstjórnin hefur fjársvelt heilsugæsluna.“

„10 milljarðar kr. er kostnaðurinn orðinn vegna skimana fyrir Covid-19 veirunni hér á landi. Á sama tíma er Krabbameinsfélaginu ekki svarað um það hvort byggt verði mannsæmandi húsnæði fyrir veikt fólk sem er að berjast fyrir lífi sínu. Þrátt fyrir að Krabbameinsfélagið bjóði 400 milljónir til framkvæmda, sem er einn þriðji af byggingarkostnaði, fá þau ekkert svar. Í því samhengi eru þær 800 milljónir sem ríkið þarf að leggja fram 8% af kostnaði við skimanir. Á sama tíma eru þeir sem eru að berjast fyrir lífi sínu í of litlu húsnæði þar sem aðstæður eru ömurlegar, gluggalaus rými án alls næðis. Það furðulegasta í þessu sambandi er að það er ekki gert ráð fyrir krabbameinsdeild í nýrri byggingu Landspítalans sem kostar tugi milljarða króna,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi í gær.

„Það er ekki heldur gert ráð fyrir geðdeild þar. Eru þessir sjúkdómar eitthvað utan garðs hjá ríkisstjórninni og þá hvers vegna? Fyrir hverja er þessi nýbygging spítalans og hvaða önnur veikindi eða sjúkdómar fá ekki þar inni? Sjúkrahótel þar sem sjúkrarúm komast ekki fyrir og nýbygging þar sem ákveðnir sjúkdómar fá ekki inni er ekki ásættanlegt og ríkisstjórninni til háborinnar skammar. Að þurfa að bíða í nær tvo mánuði eftir því að komast að hjá heimilislækni er fáránlegt. Skyldi það vera vegna þess að ríkisstjórnin hefur fjársvelt heilsugæsluna, þá með því að afnema komugjöld og bæta henni það ekki upp? Síðan var reikningurinn vegna gjaldfrjálsrar heilsugæslu sendur á heilsugæsluna sjálfa og þá einnig á veikt fólk sem þarf að fara til sérfræðilækna og/eða sjúkraþjálfara,“ sagði Guðmundur og svo þetta:

„Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst, svo allt hitt, en það er greinilegt að veikt fólk er ekki forgangi hjá ríkisstjórninni heldur fyrirtæki, þar koma fyrirtæki fyrst en ekki veikt fólk. Þarf þessi ríkisstjórn að fara frá svo að fólkið verði í fyrsta sæti?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: