- Advertisement -

Samdráttur í Straumsvík afhjúpar orkustefnuna: Það er enginn orkuskortur

Lokun þess kippir fótunum undan kenningum um viðvarandi orkuskort og þar af leiðandi þörf á nýjum virkjunum.

Gunnar Smári skrifar:

Það er illa falið leyndarmál að RioTinto, eigandi álversins í Straumsvík, er að leita leiða til að loka álverinu. Það hefur verið rekið með tapi, er af óhagkvæmri stærð og hækkun á raforkuverði jók enn tapið. Þessi hækkun er stór hluti af auknum hagnaði Landsvirkjunar, sem ríkisstjórnin undir forystu Bjarna Benediktssonar vill setja inn í svokallaðan Þjóðarsjóð. Þegar álverið lokar hverfur þessi hagnaður og þar með sjóðurinn. En það er ekki stærsta fréttin í þessu. Álverið í Straumsvík kaupir um 1/4 af allri raforku sem Landsvirkjun selur. Lokun þess kippir fótunum undan kenningum um viðvarandi orkuskort og þar af leiðandi þörf á nýjum virkjunum.

Og hvað ætlum við að gera við orkuna sem losnar?

Í stað þess að deila um hvort þessi eða hinn virkjunarkosturinn eigi að vera í verndarflokki, bið- eða nýtingarflokki, ættum við að vera að ræða hvað eigi að gera við orkuna sem losnar við lokun álversins í Straumsvík og hvernig við eigum að endurfjármagna Landsvirkjun, bjarga henni frá þrotum. Þrátt fyrir mikinn hagnað allra síðustu ár er Landsvirkjun í raun ekki sterkt fyrirtæki, það leggur mjög lítið á orkuna sem það selur stóriðjunni, aðeins örþunnt álag, og má því í raun við engu.

Og hvað ætlum við að gera við orkuna sem losnar? Halda áfram að selja hana með lítilli álagningu til álvera í Hvalfirði eða fyrir austan, gefa eigendum þeirra kost á að stækka álverin til að fresta lokun þeirra svo þeir geti enn hirt arðinn af auðlindinni? Finna einhverja nýja lukkuriddara til að byggja stóriðju, svipaða þeim sem byggðu kísilver í Helguvík? Við höfum skrapað botninn í leit að svokölluðum fjárfestum, dregið upp heldur ókræsilegan lýð. Eða nota orkuna til að flýta orkuskiptum í bifreiða- og skipaflota, byggja upp stórfellda ræktun í gróðurhúsum og ýta þannig undir umhverfisvænna samfélag? Líta á orkuna sem þjóðareign og nota hana til lífskjarajöfnunar, veita þeim sem eru með lægri tekjur en 400 þús. kr. á mánuði ókeypis orku? Veita orkunni inn í samfélagið til að auðga það og styrkja?

Hvert sem við viljum fara er frétt dagsins áminning um að núverandi orkustefna, sem byggir á kenningu um orkuskort, er fallin. Það er enginn orkuskortur. Þeir einu sem halda því fram er fólk sem ætlar að hagnast á að byggja virkjanir og krefjast þess svo að almenningur borgi uppbyggingu orkufreks iðnaðar með skattaívilnunum, innviðauppbyggingu og færa með öðrum hætti einhverjum kapítalistum tækifæri til að hirða arðinn af auðlindum okkar, oftast fólk sem við þekkjum ekki einu sinni, einhverjum Þjóðverjum (Bakki), einhverjum Ítala (HS Orka).

Bygging álversins í Straumsvík var snjöll á sínum tíma. Tryggði atvinnu og lagði grunninn að Landsvirkjun og gaf færi á að byggja upp raforkuöryggi um allt land. Stóriðjan í Hvalfirði var af sama toga, en kom á öðrum tíma og var ekki eins mikilvæg. Kárahnjúkavirkjun var svo mistök, að færa eigendum álversins í Reyðarfirði stórfelldan hagnað byggðan á ódýru orkuverði og skattleysi. Og það sama má segja um æ skrítnari tilraunir til að byggja upp stóriðju á þessari öld.

Við eigum að fagna að þetta tímabil er búið og taka glöð þátt í að ræða hvað tekur við.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: